Berjast við mikinn eld í verksmiðjuhúsnæði í Hrísey

28.05.2020 - 06:21
Mynd með færslu
 Mynd: Ólafur Búi Ólafsson - RÚV
Slökkviliðið á Akureyri ásamt slökkviliðsmönnum í Hrísey berjast nú við mikinn eld í gamalli verksmiðju. Slökkviliðsmaður sem fréttastofa náði tali af sagði von á „fullt af mönnum frá landi og dælum,“ til að aðstoða við slökkvistarfið. Reynt væri að verja það sem hægt væri að verja og slökkviliðinu væri nú að takast að halda í við eldinn. Eldsmatur væri talsverður.

Lögreglan á Norðurlandi eystra biður íbúa um að loka öllum gluggum og kynda vel í húsum sínum þar sem slíkt komi í veg fyrir að reykur berist inn.

Íbúi í Hrísey, sem fréttastofa ræddi við, sagði mikla reykjarlykt leggja yfir bæinn og ösku. Hríseyjarferjan Sævar kom  með tugi slökkviliðsmanna frá Akureyri og þrjár dælur um klukkan hálf sjö og von er á fleirum. „Húsið er bara alelda,“ sagði íbúinn.

Óttast væri að hann næði að breiðast út í nærliggjandi hús. Hann sagðist halda að eldurinn hefði kviknað um fimm leytið í morgun.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Norðurlandi eystra er eldurinn í gömlu frystihúsi. Tilkynning barst um fimm leytið í morgun. Eldurinn sést vel frá landi.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi