Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Áform um skimanir í Keflavík vakið áhuga flugfélaganna

28.05.2020 - 19:51
Innlent · Covid 19 · Covid19 · Icelandair · Isavia
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Tvö evrópsk flugfélög hafa ákveðið fljúga til landsins í júní og júlí. Áform um skimun ferðamanna á Keflavíkurflugvelli vöktu áhuga flugfélaga að mati sérfræðings hjá ISAVIA. 

Tvö erlend flugfélög hafa ákveðið að hefja áætlunarflug til Keflavíkurflugvallar í júní og júlí. Framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá ISAVIA segir að tilkynning um skimanir á landamærunum hafi aukið áhuga á Íslandi í sumar.

Eins og er liggja flugsamgöngur nánast niðri. Flest flugfélög gefa lítið upp um flugáætlanir sínar á meðan óvissa ríkir um opnun landamæra víðs vegar um heiminn. 

Czech airlines og Wizz air áforma áætlunarflug til Keflavíkur

ISAVIA leggur áherslu á að vera í góðu sambandi við þau flugfélög sem hafa flogið hingað áður. „Við erum í viðræðum við öll flugfélög sem fljúga og hafa verið að fljúga á Keflavíkurflugvöll. Og sérstaklega öll sem sýna okkur áhuga. Sérstaklega síðustu daga höfum við verið í góðu sambandi við Czech airlines. Þeir ætla að hefja flug hingað 17. júní tvisvar í viku og fjölga síðan aftur í júlí,“ segir Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri Viðskipta og þróunar hjá Isavia.

Flugfélagið stefnir á að fljúga milli Pragar í Tékklandi og Íslands fjórum til sex sinnum í viku í júlí en það veltur á eftirspurn. Þá hefur Wizz air ákveðið að fljúga frá Keflavík til Mílanó á Ítalíu þrisvar í viku frá og með þriðja júlí. Icelandair vonast til að hefja reglulegt flug til lykiláfangastaða fljótlega eftir 15. júní en eftirspurnin verði að ráða.  

Áhugi á Íslandi að vakna

Stefnt er að því að hefja sýnatöku á landamærum Íslands frá og með 15. júní. Vakti það áhuga flugfélaganna á landinu? „Það kveikti klárlega í flugfélögunum að það kom tilkynning um opnun landamæranna og skimun á Keflavíkurflugvelli. Og við höfum fundið mjög greinilega fyrir áhuga þeirra að byrja að fljúga hingað í framhaldi af þeirri tilkynningu,“ segir Guðmundur Daði.

Veirufræðideild Landspítalans ræður ekki við að skima fleiri en 500 farþega fyrir kórónuveirunni á dag að mati verkefnisstjórar um opnun landamæranna. Ef það koma fleiri en 500 gæti fyrirheitið um að skima alla farið fyrir lítið þar sem ekki sé hægt að takmarka fjölda komufarþega nema að undangengnu víðtæku samráði.

Teljið þið að það verði fleiri en 500 á dag? „Það er ómögulegt að segja á þessari stundu hver fjöldinn verður, en áhuginn er til staðar og hversu mikill hann verður - við verðum bara að bíða og sjá.“