Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Úrskurðarnefnd vísar kærum vegna Hvalárvirkjunar frá

27.05.2020 - 16:27
Mynd með færslu
 Mynd: Lára Ómarsdóttir - RÚV
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur vísað frá fimm kærum í tengslum við Hvalárvirkjun í Árneshreppi á Ströndum. Kærurnar stöðvuðu vegaframkvæmdir þar fyrir norðan síðasta sumar.

Kærurnar voru á hendur Árneshreppi og komu allar frá nokkrum eigendum jarðanna Dranga, Drangavíkur, Eyrar við Ingólfsfjörð og Seljaness. Þær vörðuðu bæði samþykkt hreppsins á nýju deiliskipulagi vegna Hvalárvirkjunar og útgáfu framkvæmdaleyfis til vegavinnu og efnistöku vegna rannsókna. Vegaendurbætur voru þegar hafnar í Ingólfsfirði en voru stöðvaðar þegar kærurnar bárust síðasta sumar.

Úrskurðarnefnd mat það sem svo að landeigendur gætu ekki talist eiga kæruaðild í málinu þar sem þeir ættu ekki grenndarhagsmuna eða annarra lögvarðra hagsmuna að gæta. Því var kærunum vísað frá. 

Enn á eftir að skera úr fleiri kærum

Ásbjörn Blöndal, stjórnarformaður Vesturverks sem kemur að framkvæmd virkjunarinnar, fagnar niðurstöðunni. Enn á þó eftir að skera úr tveimur kærum sama efnis frá félagasamtökum, þar á meðal Ófeig náttúruvernd og Landvernd.

„Við leyfum Úrskurðarnefndinni bara að hafa sinn tíma til að kveða upp úrskurð og erum svo sem ekkert að tjá okkur sérstaklega um þau mál sem eru hjá nefndinni. Þannig við bíðum bara niðurstöðu eins og við höfum gert með þessi mál sem nú voru afgreidd,“ segir Ásbjörn.

Vegavinna hefst ekki aftur tafarlaust

Hann segir að jafnvel þótt sama niðurstaða fáist í þau mál hefjist vegaframkvæmdir ekki að nýju þá og þegar. Dregið var töluvert úr starfsemi Vesturverks í byrjun þessa mánaðar vegna stöðu raforkumarkaðar í heimsfaraldrinum. Ekki er ljóst hvenær starfsemi hefst á ný.

„Ég myndi nú segja það að óvissan er bara það mikil eins og staðan er að við getum voða lítið sagt um það nema bara að við höldum áfram okkar rannsóknum og þannig byggjum við betur undir ákvarðanatöku seinna meir.“

Ekki beinir aðilar þegar kemur að afhendingaröryggi

Hvalárvirkjun hefur verið sögð mikilvægur liður í því að tryggja afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum. Vesturverk hefur jafnframt fjallað um hlutverki virkjunarinnar í þeim málum.

„Það er náttúrulega Landsnet og dreifiaðilar sem sjá um þau mál. Afhendingaröryggi á svæðinu og afhendingargetu. Gæði á raforku og þess háttar. Þannig við erum svo sem ekki beinir aðilar að þeim málum,“ segir Ásbjörn.