Úr 700 milljónum króna í tvo milljarða vegna sóttkvíar

Heilbrigðisstarfsfólk þjálfað í að fara í viðeigandi hlífðarbúnað vegna Covid-19
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Heildargreiðslur ríkissjóðs vegna þeirra sem fóru í sóttkví verða tveir milljarðar króna. Hámarksfjárhæðin miðast við 630 þúsund krónur í mánaðarlaun. Upphaflega var gert ráð fyrir að heildargreiðslurnar yrðu rúmlega helmingi lægri eða um 700 milljónir.

Þetta kemur fram í frumvarpi fjármálaráðherra til fjáraukalaga sem dreift var á Alþingi í gær.

Þar segir að greiðslurnar megi rekja til yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar, ASÍ og SA í byrjun mars um samfélagslega nauðsyn þess að hægja á útbreiðslu kórónuveirunnar. 

Sóttkví hafi verið lykilráðstöfun og markmiðið með greiðslum úr Atvinnuleysistryggingasjóði hafi verið að verja fólk gegn tekjutapi og stuðla að því að fólk færi eftir fyrirmælum stjórnvalda um að fara í sóttkví. 

Á covid.is kemur fram að 20.389 hafi lokið sóttkví. 766 eru nú í sóttkví.  Fjármálaráðherra segir að upphaflega hafi verið gert ráð fyrir að heildargreiðslurnar yrðu um 700 milljónir króna en nú sé ljóst að þær verði hærri.

Þetta megi meðal annars rekja til þess að mun fleiri hafi farið í sóttkví enn upphaflega var gert ráð fyrir. Þá hafi tímabilið verið lengt en það átti að ná til 30. apríl. Það hefur nú verið framlengt til 30. september.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi