Þúsundum kínverskra barna rænt ár hvert

27.05.2020 - 08:00
Erlent · Asía · Heimskviður · Kína · Rás 1
epa08223650 A man wearing a protective mask rides a bicycle with his children in Guangzhou, China, 17 February 2020. The disease caused by the novel coronavirus (SARS-CoV-2) has been officially named Covid-19 by the World Health Organization (WHO). The outbreak, which originated in the Chinese city of Wuhan, has so far killed at least 1,776 people and infected over 71,000 others worldwide, mostly in China.  EPA-EFE/ALEX PLAVEVSKI
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Fjölmiðlar í Kína, og víðar, fylgdust í síðustu viku með langþráðum endurfundum ungs manns og foreldra hans. Þau höfðu ekki hist í 32 ár eða frá því að syninum var rænt þegar hann var tveggja ára. Þúsundum barna er rænt á hverju ári í Kína, og þau ganga kaupum og sölum.

Þarna er hinn 32 ára Mao Yin að faðma móður sína. Það er í sjálfu sér mjög fallegt og gott, en það sem gerir faðmlag þeirra óvenjusérstakt er að þau hafa ekki hist í 32 ár, eða síðan Mao Yin var tveggja ára.

Þann 17. október árið 1988 fóru feðgarnir Mao Zhenjing og Mao Yin fótgangandi heim úr leikskóla þess síðarnefnda. Sá stutti varð þyrstur á göngunni, kannski eftir langan og annasaman skóladag, og bað pabba sinn um eitthvað að drekka.

Þeir stöldruðu því við í móttöku hótels í heimaborg þeirra Xian. Zhenjing leit af syni sínum örstutta stund á meðan hann var að útvega honum vatnssopa. Drengurinn hvarf þarna úr anddyri hótelsins, eins og jörðin hefði gleypt hann. Mao litli var þá var tveggja og hálfs árs, fæddur í febrúar árið 1986.

Drengsins var eðli málsins samkvæmt ákaft leitað og foreldrar hans, faðirinn Zhenjing og móðirin Li Jingzhi, í öngum sínum. Einkasonur þeirra var horfinn.

Þarna heyrum við Li sjálfa segja sögu sína í fyrra, en eftir að sonur hennar hvarf gerði hún það nefnilega að ævistarfi sínu að leita að honum. Hún sagði upp í vinnunni, mætti í viðtalsþætti og dreifði tugum þúsunda útprentaðra auglýsinga með myndum af syni sínum. Þær telja um 300 vísbendingarnar, ábendingarnar og skilaboðin sem hún fékk, rannsakaði og elti en án árangurs. Hún gekk sömuleiðis til liðs við hjálparsamtök sem hafa það að markmiði að sameina fjölskyldur og hjálpaði foreldrum 29 barna að finna afkvæmi sín.

Leit hennar bar þó ekki árangur fyrr en 32 árum eftir að hún hófst. Það var í apríl, bara í síðasta mánuði, sem lögreglunni í Xian bárust vísbendingar um mann frá Sichuan-héraði, sem hafði keypt sér barn seint á níunda áratugnum. Barn frá Shaanxi-héraði, þar sem borgin Xian er. Það eru um þúsund kílómetrar á milli staðsins sem hann fannst á og borgarinnar þar sem honum var rænt. Í þessi 32 ár gekk Mao Yin undir nafninu Gu Ningning, algjörlega ómeðvitaður um blóðforeldra sína. Fólkið sem bjó hann til og fæddi, og leitaði hans logandi ljósi.

Í umfjöllun kínverskra miðla um málið segir meðal annars að Mao Yin hafi í gegnum tíðina séð Li í sjónvarpsviðtölum vera að lýsa eftir syni sínum. Algerlega grunlaus um að hann væri sjálfur þessi sonur sem hún þráði svo að finna.

Lögreglan í Xian hefur ekki gefið ýkja mikið upp um ábendingarnar sem leiddu til þess að Mao Yin fannst. Einnig hefur ekkert verið gefið upp um fólkið sem keypti drenginn og ól hann upp í 32 ár, né heldur um manneskjuna sem rændi honum. Það hefur þó verið gefið upp að söluverð Mao litla var 6.000 yuan, sem eru um 120 þúsund íslenskar krónur að núvirði.

Með hjálp nútímatækni var hægt að skera úr um grun lögreglu, sem fyrst notaði sérstaka tölvutækni til að bera kennsl á unga manninn, með barnamynd af honum til hliðsjónar. Myndirnar voru keyrðar í gegnum gagnagrunn sem geymir myndir af týndum börnum. DNA-próf tók svo af allan vafa að ungi maðurinn sem hafði heitið Gu Ningning í 32 ár var í raun og veru Mao Yin sem var rænt þegar hann var tveggja ára. Fregnirnar fengu foreldrar hans þann 10. maí síðastliðinn, sem er einmitt mæðradagurinn í Kína og víðar. Móðirin Ji sagði sjálf, líklega réttilega, að þetta væri besta mæðradagsgjöfin sem hægt væri að hugsa sér.

Þúsundum barna rænt ár hvert

Saga þeirra er merkileg fyrir margra hluta sakir, og hvaða handritshöfundur sem er yrði fullsæmdur af atburðarásinni, sem meira að segja býr yfir hamingjuríkum endalokum. Alla vega fyrir hina ný sameinuðu fjölskyldu. Það setur sögu fjölskyldunnar þó í stærra samhengi að hugsa til þess að hún er ekkert einsdæmi.  Rán og sala á börnum er býsna algeng í Kína.

Engar opinberar tölur eru til um fjölda þeirra barna sem er rænt í Kína ár hvert. Árið 2015 var áætlað að um 20 þúsund börnum væri árlega rænt þar í landi. Þær upplýsingar eru þó ekki fengnar frá kínverskum yfirvöldum, ef þau búa yfir þessum upplýsingum eru þau ekki áfjáð um að deila þeim. Bandaríska utanríkisráðuneytið virtist áfram um að verða sér út um þessa vitneskju og gekk í málið fyrir um fimm árum. Þeirra áætlanir gerðu ráð fyrir að um 20 þúsund kínverskum börnum sé rænt á ári hverju. Það gera um 400 börn í hverri viku.

Í kínverskum miðlum hefur því verið haldið fram að allt að 200 þúsund börnum sé rænt árlega í Kína, en því hafa löggæsluyfirvöld í Kína neitað. Þó umfangið sé því ekki alveg ljóst ætti að vera óhætt að halda því fram að þúsundum barna sé ár hvert rænt í Kína. Og á bak við hverja og eina sögu er fólk, börn sem er rænt og þau seld til annarra.

Tuttugu og átta stúlkur undir þriggja mánaða

Rán og sala á börnum í Kína rataði fyrst í heimsfréttirnar árið 2003 þegar 28 stúlkubörn, öll yngri en þriggja mánaða, fundust í rútu í Guangxi héarði í Kína. Þeim hafði öllum verið rænt og gefin róandi lyf til að auðvelda flutningana. Litlu stúlkurnar voru svo geymdar í litlum nælon pokum sem ein þeirra kafnaði í. Fimmtíu og tvö voru á endanum dæmd fyrir mansalið, þar af nokkur til dauða.

Aukin vitund og aukið eftirlit með glæpastarfsemi af þessu tagi skilar sér í enn útsmognari glæpamönnum, sem leita sífellt nýrra leiða til að selja börn. Langi áhugasömum að komast nær umfjöllunarefni þessa pistils má beina fólki inn á heimasíðuna bao-bei-huijia, sem gæti útlagst á íslensku sem börnin heim. Þar eru tugir þúsunda mála á skrá, fólk sem vill finna börnin sín, foreldra eða aðra ættingja. Við skoðun á ásjónum ungra barna, sem eiga það öll sameiginlegt að hafa verið rænt, setur mann hljóðan. Það er líklega ekki hægt að orða það á neinn hátt öðruvísi.

Flest eiga börnin það sameiginlegt að þeirra leita ákaft foreldrarnir sem misstu þau. Öryggismálaráðuneyti Kína setti á laggirnar árið 2009 gagnagrunn með ljósmyndum og öðrum skjölum tengdum mannshvörfunum. Á sjöunda þúsund hafa fundið börnin sín eða foreldra með aðstoð upplýsinga í gagnagrunninum.

Já, tæknin hjálpar líka til við eftirlit með þeim sem vilja stela börnum. Þannig rataði í heimsfréttirnar árið 2016 leit að þriggja ára stúlku sem var rænt á götu úti í Guangdong. Lögregla deildi á samfélagsmiðlum myndskeiði sem sýnir konu teyma barnið á brott. Myndskeiðinu var dreift afar víða og stúlkan fannst á endanum.

Drengir verðmætari en stúlkur

Örlög flestra barna sem rænt er er að þau eru seld til ættleiðingar. Sum eru þó seld í vinnuþrælkun eða nýtt sem handbendi glæpasamtaka. En sem fyrr segir, flest eru seld til fólks sem vill svo gjarnan eignast börn.

Drengir kosta meira en stúlkur, allt að því helmingi meira. Sú staðreynd á rætur sínar í aldagamalli tilhneigingu í kínversku samfélagi, að halda meira upp á drengi. Þeir eru líklegri til að viðhalda ættarnafni fjölskyldunnar og sömuleiðis líklegri til að halda foreldrum sínum uppi þegar aldurinn færist yfir.

Verðmæti drengja umfram stúlkna á líka rætur að rekja til reglu sem sett var árið 1979 og heimilaði fólki að eiga einungis eitt barn. Þetta var gert til þess að reyna að draga úr örri fólksfjölgun í Kína. Það er talið hafa tekist upp að vissu marki, og útreikningar sérfróðra segja að komið hafi verið í veg fyrir um 400 milljón barnsfæðingar á þessum tæpu 40 árum sem reglan var í gildi. Kína er þó enn er fjölmennasta ríki heims. Og það voru engar smásektir eða skammir við því að fjölga sér um meira en eitt barn. Allt frá sektum og atvinnumissi og til þvingaðra fóstureyðinga gat beðið þeirra sem fjölguðu sér meira en ríkið bauð. Ef þú mátt bara eiga eitt barn þótti mörgum það ákjósanlegra að það væri drengur, af áður nefndum ástæðum. Þó landslög heimili nú að fólk eigi tvö börn í Kína hafa allar þessar reglur áhrif á viðhorf til barneigna.

Eftirspurn eftir drengjum er því enn umtalsverð. Og það er meira að segja svo að sumt fólk selur börnin sín og þá ekki síst stúlkurnar. Það eru fátækar fjölskyldur sem geta ekki séð fyrir börnum sínum. En það er ekki fólkið sem hér er til umfjöllunar, heldur börnin sem er rænt og foreldrar þeirra.

Það er nefnilega svo að barnsrán, og mansal með börn jókst til allra muna í Kína eftir að reglan um eitt barn á par var sett árið 1979. Og þó að reglan sé ekki lengur í gildi er sala á börnum enn gróðavon margra. Og þar sannast hið margkveðna um framboðið og eftirspurnina.

Hugum í lokin aðeins aftur að Mao Yin, sem var að komast aftur í faðm foreldra sinna, 32 árum eftir að honum var rænt. Hann starfaði hjá fyrirtæki sem sérhæfir sig í innanhússhönnun, að því er hann taldi, heimahéraði sínu Sichuan. Hann, líkt og aðrir, veit ekki hvað framtíðin ber í skauti sér, en hann hyggst alla vega um stundarsakir flytja aftur til Xian, til foreldra sinna, til að vinna upp glataðan tíma.

En þó að þó nokkur börn rati á endanum aftur heim til foreldra sinna er mikill meirihluti þeirra sem gerir það ekki.

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi