Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Þakklátur fyrir þennan risastóra pásutakka í líf sitt

Mynd: Söngvakeppnin / RÚV

Þakklátur fyrir þennan risastóra pásutakka í líf sitt

27.05.2020 - 11:19

Höfundar

Eftir langt hlé er tónleikahald að fara aftur af stað á Íslandi með áhorfendum. Í Hörpu hefur dyrum verið lokið upp og Páll Óskar kemur fram ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands í Eldborg annað kvöld. Páll Óskar segir að COVID-19 faraldurinn hafi komið með afar kærkominn pásutakka inn í líf hans.

„Mér fannst persónulega gott að fá þennan risastóra pásutakka á líf mitt. Ég rankaði við mér, ég gerði mér grein fyrir því að ég er búinn að vera í einhverri blöndu af hringekju og hvirfilbyl í 12 ár. Ég hef ekki stoppað neitt,” segir Páll Óskar. Hann segir það vera í höndum hvers og eins hvernig viðbrögð við svona ástandi eru og hann var staðráðinn í að gera gott úr aðstæðunum. Hann segist hafa fengið nýja sýn á kaupmynstur sitt og verðmætamat. „Allt í einu er ég bara heima hjá mér með köttunum og fer í gegnum sokkasafnið, eldhússkápana og fataskápana og lærði hvað ég er búinn að sanka af mér mikið af drasli, hvað ég er búinn að kaupa mér mikinn óþarfa þannig að verðmætamatið hjá mér gjörbreyttist. Ég veit ekki hvað ég er búinn að kaupa mikið af drasli sem einhver er búinn að sannfæra mig um að ég verði að kaupa mér fyrir peninga sem ég á ekki til, eitthvað dót sem ég þarf ekki á að halda, til að ganga í augun á einhverju liði sem er skítsama. Verðmætamatið mitt liggur ekki bara þar,” segir Páll Óskar. 

Páll Óskar nýtti þó ekki tímann eingöngu í að flokka sokka og raða í skápa. Hann nýtti tækifærið til að horfa inn á við og skoða hvað hann hefur gert sem listamaður undanfarin ár. „Ég var mjög sáttur við þá sýn, það stöðutékk. Þess vegna fór ég fílefldur inn í stúdíó að halda áfram. Þannig að ég persónulega fékk bara gott út úr þessu,” segir Páll Óskar. Hann skellti sér í hljóðver til að taka upp nýtt lag sem kemur út á miðnætti á fimmtudag. Lagið er það fyrsta sem Páll Óskar sendir frá sér í rúmlega þrjú ár. 

Þrátt fyrir að tónleikahald hafi nánast algjörlega lagst af í samkomubanninu er Páll Óskar afar þakklátur fyrir það hvernig hefur verið tekið á málum hér. Vinir hans í London eru margir hverjir í verri málum en þar lítur út fyrir að öll helstu leikhús landsins fara ekki af stað fyrr en árið 2021. „Við hérna heima getum prísað okkur mjög vel, við erum búin að gera þetta mjög vel og fallega. Að vera alla vega með heilbrigðisráðherra sem leyfir þríeykinu að taka þessar ákvarðanir og treysta þeim án einhverja stæla, án einhvers inngrips. Við getum verið þakklát fyrir það,” segir Páll Óskar. 

Á fimmtudagskvöld kl. 20 stígur Páll Óskar á svið í Eldborg í Hörpu ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands og það sem verður sérstakt við þá tónleika er að um 500 áhorfendur verða í salnum. Tónleikarnir standa yfir í um það bil klukkutíma og verða tónleikarnir í beinni útsendingu á RÚV. Sinfóníuhljómsveitin og Páll Óskar hafa áður unnið saman en tónleikarnir á fimmtudaginn verða þó með öðru sniði. „Þetta verður ákaflega sérstakt, þetta verða sérstakar aðstæður sem ég vona að ég upplifi aldrei aftur. En við ætlum að spila eins vel úr þessu og við getum. Ég gerði tónleika með Sinfó, ég gerði þetta fyrst árið 2010 í Háskólabíói og endurtókum þetta í Hörpu þegar hún var nýopnuð í júlí 2011. Þegar kórónuvírusinn fór að láta á sér kræla þá tékkaði Sinfó á lagernum. Þau fundu þessar útsetningar á lögum og þessar útsetningar stóðust tímans tönn og þau hringdu og spurðu hvort ég vildi vera með,” segir Páll Óskar. Hann hafi ekki þurft að hugsa sig lengi um hvort hann ætti að taka þátt í þessu verkefni. „Bara no-brainer. Það er búið að vera gríðarlega gaman á þessum æfingum. Bara að fá að mæta aftur í húsið, vera í þessari músík, vera í þessum hljóðheimi. Bara að vakna, hita sig upp og og mæta í vinnuna. Þannig að Sinfó er í rauninni að keyra landið aftur í gang. Á þann hátt sem þau geta,” segir Páll Óskar. 

Páll Óskar þurfti að fresta fyrirhuguðum afmælistónleikum sínum í Hörpu og þeir verða haldnir í Háskólabíói í september. Hann segir að auðveldara hafi verið að færa tónleikana en hann átti von á. Miðaeigendum bauðst að halda sínum miðum og einnig var boðið upp á endurgreiðslu. Páll Óskar segir að af rúmlega 2.500 seldum miðum hafi aðeins 108 óskað eftir endurgreiðslu og yfirleitt vegna þess að fólk var upptekið á nýju dagsetningunum. Segist hann nú vera á fullu að uppfæra sýninguna ásamt Friðriki Ómari og þeir lofa flottum tónleikum. 

Tónleikar Páls Óskars og Sinfóníuhljómsveitar Íslands verða í beinni útsendingu á RÚV fimmtudagskvöldið 28. maí kl. 20.

Rætt var við Pál Óskar í Morgunútvarpinu á Rás 2.

Tengdar fréttir

Klassísk tónlist

Þrennir tónleikar Sinfó í beinni á RÚV

Innlent

Páll Óskar frestar afmælistónleikum fram á haustið