Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Skimanir verði að vera fleiri eigi þær að koma að gagni

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Það þarf að vera hægt að taka mun fleiri en 500 veirusýni á dag á Keflavíkurflugvelli, að sögn Bjarnheiðar Hallsdóttur, formanns Samtaka ferðaþjónustunnar. Fram kom í gær að samkvæmt skýrslu verkefnastjórnar um opnun landamæra sé sýkla- og veirufræðideild Landspítalans ekki í stakk búin til að vinna nema 500 sýni á dag þegar skimanir á flugvellinum eiga að hefjast í júní. Talan gæti þó hækkað ef samið verður við fleiri um að skima.

„Manni finnst þessi tala svona frekar lág, þessi afköst, þessi 500 manna tala. Ég held að það liggi alveg fyrir að það þarf að hækka þessa tölu ef þetta á að koma að einhverju gagni. Við allavega vonum það að það verði meiri eftirspurn eftir ferðum til Íslands en þetta,“ sagði Bjarnheiður í Morgunútvarpinu í morgun.

„Svo megum við heldur ekki gleyma því að það er ekkert útilokað að Íslendingar fari eitthvað að ferðast líka og þurfi þá að gangast undir þessa prufu við heimkomu,“ bendir hún á.

Heildarkostnaður við sýnatöku ferðamanna sem koma til landsins eftir 15. júní gæti verið allt að 50 milljónir á dag og skapað verulega áhættu fyrir Landspítalann. Hver skimun kostar 20 þúsund krónur og ríkissjóður ber þann kostnað til að byrja með. Ekki verður hægt að taka meira en 500 sýni á dag á veirufræðideild Landspítalans fyrr en um miðjan júlí. 

Bjarnheiður segir augljóst að Landspítalinn verði að fá aðra til liðs við sig í þessu verkefni.

„Það er búið svo sem að gefa það út að það er hægt að auka þessi afköst með því að bæta í búnað og mönnun, upp í þúsund á dag. Svo hefur líka verið talað um að það sé hugsanlegt að fá utanaðkomandi aðila líka til liðs við verkefnið. En þetta er náttúrulega allt mjög óljóst og augljóst að það verður ekki hlaupið að þessu,“ segir Bjarnheiður. 

„Ég held að ef það á að gera þetta, þá sé alveg augljóst að það þurfi að hækka þessa tölu. Af því annars verður bara að fara að vísa fólki frá og velja hverjir fá að fara í prufu. Og ég held að það gæti orðið mjög erfitt í framkvæmd.“