Miklar kalskemmdir frá Tröllaskaga austur á firði

27.05.2020 - 12:03
default
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Óveðrið sem gekk yfir Norðurland í desember og kuldatíð í vetur olli miklu tjóni á túnum bænda á Norður- og Austurlandi. Nú þegar snjó hefur víðast hvar tekið upp koma skemmdir á túnum og girðingum í ljós.

Veturinn var vægast sagt óvæginn í garð Norðlendinga og hvert óveðrið á fætur öðru dundi yfir.  Kuldatíðin olli kalskemmdum á túnum allt frá Tröllaskaga austur á Fljótsdalshérað og Austfirði. Sigurgeir Hreinsson, framkvæmdastjóri Búnaðarsambands Eyjafjarðar, segir ástandið víða mjög slæmt, en verst sé það í Þingeyjarsýslum. 

„Þar eru svona fyrstu ágiskanir að þetta séu yfir 30 prósent, og margir bæjir með 30 til 70 prósent kal en í Eyjafirði er þetta nú minna. Eyjafjarðarsveit til dæmis er ekki slæm, það eru einstaka bæjir,“ segir Sigurgeir.

Oft verið verra vor en snjómagnið gríðarlegt

Þar sé meira um bletti á túnum þar sem grös hafa drepist undir svelli því súrefni hefur ekki náð til róta. Sigurgeir segir að kalið megi fyrst og fremst rekja til þess hversu mikill snjór og klaki hafi verið víða í vetur. Tíðin í vor hafi ekki verið sérstaklega slæm. Á Eyjafjarðarsvæðinu sé ástandið verst í Hörgársveit.

„Með þessum blettum sem alls staðar eru gæti jafnvel verið um 20 prósent af túnum í Eyjafirði í heild kalin. Það  er ljóst að þetta er mikið tjón.“

Oft pirrandi veður

Sigurgeir segir að í gegnum tíðina hafi snjóað mikið á Norðurlandi og að veturinn í ár hafi ekki endilega verið sá snjóþyngsti sem hann man eftir. Hins vegar hafi tíðin verið hundleiðinleg.

„Þetta var leiðindavetur svona heilt yfir. Óstöðugur og oft pirrandi veður. Margir bændur til dæmis sem moka heimreiðar sínar sjálfir, það væri gaman að sjá tímaskráningu hjá þeim hvað þeir hafi verið stjóran hluta af vinnutímanum í vetur bara að moka snjó og ég tala nú ekki um olíukostnað. Þetta var mjög erfitt víða.“ segir Sigurgeir

 

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi