Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Mikil fjölgun smitaðra í Perú

27.05.2020 - 02:05
epa08444093 A relative attends a funeral people who died with COVID-19 at El Angel cemetery in Lima, Peru, 25 May 2020. Peru has confirmed that over 3,000 people have died with COVID-19 and coronavuris.  EPA-EFE/Sergi Rugrand
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Í dag greindust 5800 einstaklingar með kórónuveiruna í Perú. Að sögn þarlendra heilbrigðisyfirvalda er um að ræða metfjölgun milli sólarhringa en nú hafa um 130 þúsund smitast. Undanfarið hafa um 4000 greinst með veiruna hvern dag.

Þar í landi hafa tæplega 3800 látist síðan fyrsta tilfellið var greint í byrjun mars.

Rómanska Ameríka hefur um hríð verið miðpunktur útbreiðslu veirunnar. Þungar áhyggjur eru uppi vegna þess mikla stíganda sem er í fjölgun smitaðra einkum í Perú, Síle og Brasilíu.

Forseti Perú, Martin Vizcarra, kveðst þó telja vísbendingar uppi um að nú væri það versta yfirstaðið og að hámarki í útbreiðslu faraldursins væri náð. Allt bendi til þess að hann sé smám saman í rénun.

Um 70 af hundraði smitaðra búa í höfuðborginni Lima og í Callao, nærliggjandi hafnarborg. Á því svæði býr um þriðjungur landsmanna eða um tíu milljónir. Útgöngubann sem nánast hefur lamað efnahag landsins hefur verið í gildi í 72 daga.

Heilbrigðiskerfið er að niðurlotum komið enda standa almenningssjúkrahús frammi fyrir mjög alvarlegum skorti á sjúkragögnum.

Undanfarinn sólarhring létust 1039 af völdum kórónaveirunnar í Brasilíu og samkvæmt opinberum tölum eru samtals tæplega 25 þúsund látin. Það er mesti fjöldinn í álfunni en nú skipar Perú annað sætið yfir dauðsföll þar.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV