Lufthansa þiggur ekki björgunarpakka

27.05.2020 - 14:50
Mynd með færslu
 Mynd: Airbus
Yfirstjórn þýska flugfélagsins Lufthansa ætlar ekki að ganga að tilboði stjórnvalda um að bjarga því frá gjaldþroti. Hún gerir ráð fyrir að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hafni björgunaraðgerðunum.

Samkvæmt tilboði sambandsstjórnarinnat í Berlín ætlaði ríkið að reiða fram níu milljarða evra og eignast með því tuttugu prósenta hlut í Lufthansa auk heimildar til að bæta við sig fimm prósentum og einum hlut að auki til að koma í veg fyrir fjandsamlega yfirtöku fyrirtækisins. Í yfirlýsingu sem yfirstjórnin sendi frá sér í dag segir að búast megi við því að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins fallist ekki á björgunaraðgerðirnar. Jafnframt veiki þær aðstöðu Lufthansa á safnflugvöllum félagsins í Frankfurt og München.

Níu af hverjum tíu þotum Lufthansa hafa staðið óhreyfðar vikum saman vegna COVID-19 farsóttarinnar. Áætlað er að félagið tapi einni milljón evra á hverri klukkustund.

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi