Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Loftslagsáhrif augljós en rokið fletur mengunarkúrfuna

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Umferð dróst verulega saman á höfuðborgarsvæðinu á meðan kórónuveirufaraldurinn stóð sem hæst og á vef Vegagerðarinnar er talað um að umferðin um hringveginn hafi hrunið í apríl. Samhliða hefur dregið skarpt úr losun gróðurhúsalofttegunda frá umferð. Áhrifin á loftmengun hafa verið minni. Umhverfisstofnun er nú að taka saman hversu mikið dró úr loftmengun í samkomubanninu. 

Fjallgarðar hverfa líklega aftur

Þrír áratugir eru síðan Indverjar gátu séð tinda Himalaja-fjallanna bera við himinn. Loftið var of mengað til þess. Nú geta þeir barið fegurðina augum, en líklega ekki lengi. Ef þróunin þar verður eins og í Kína, er ekki langt í að reykjarmökkur hylji fjöllin á ný. Í Kína er mengunin orðin meiri en hún var áður en útgöngubannið skall á, þar starfa verksmiðjurnar á fullu við að rétta hagkerfið af eftir margra mánaða lægð.

Ekkert dramatískt hér

Hér hefur loftmengun líka dregist saman í faraldrinum en við höfum kannski ekki séð dramatískar breytingar. Við höfum ekki endurheimt neina fjallgarða. „Það er ekkert sem við sjáum augljóslega, berum augum. Ekki hér. Almennt séð er loftmengun mjög lítil á Íslandi. Við erum í besta sæti í Evrópu,“ segir Þorsteinn Jóhannsson, loftgæðasérfræðingur hjá Umhverfisstofnun. 

Rokið fletur kúrfuna

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Þorsteinn Jóhannsson.

Ísland er rokrassgat, kannski er það ein ástæða þess hvað margir hér eru háðir einkabílnum. Hann veitir skjól. Rokið þynnir líka út mengunina. Þorsteinn Jóhannsson, loftgæðasérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, sem við heyrðum í hér áðan, segir að á Covid-máli mætti orða það svo að rokið fletji kúrfuna. „Í mörgum löndum hefur mengun minnkað talsvert, bara alveg í takt við hvað umferðin hefur minnkað. Til dæmis á Norður-Ítalíu er mjög skýr minnkun og hér hefur umferðin minnkað mikið líka, svona 40% minnkun fljótlega eftir að samkomubanni var komið á. Þá getum við gert ráð fyrir því að losun loftmengunarefna sé í takt við það. Losunin minnkar jafn mikið en það er annað mál hver styrkur þeirra í andrúmsloftinu verður. Þar kemur inn önnur breyta sem er veðrið. Það er svo breytilegt hér þannig að við sjáum ekki jafn skýrt hér þessa minnkun. Það er kannski svona sjónarmunur. Við erum ekki búin að greina það alveg nógu vel en við ætlum líka að leyfa sveiflunni að ná upp aftur og setjast betur yfir þessi gögn.“ 

Umferðarhrun

Í aprílmánuði var umferð um höfuðborgarsvæðið tæplega þriðjungi minni en í apríl í fyrra. Samdrátturinn er eins og svo margt síðustu vikurnar fordæmalaus. Umferðin um Hringveginn dróst enn meira saman í apríl eða um 35%. Á vef Vegagerðarinnar er talað um hrun.  
Umferðin virðist vera að rétta úr kútnum. Umhverfisstofnun ætti því að geta farið að grandskoða sótið sem safnast hefur í síur á söfnunarstöðvum síðastliðna mánuði.  „Já, allavega loftmengunartölur,  sem sagt styrkur efnanna í lofti, ég geri ráð fyrir því að við setjumst niður og skoðum þær sérstaklega fyrir þetta tímabil. Hvernig mengunin minnkaði þegar samkomubannið var sett á og hvernig hún jókst aftur. Nú sér maður umferðina, hún er greinilega að aukast og þá gerir maður ráð fyrir að mengunin aukist í einhverjum takti við það.“ 

Umferðin sveiflast og óvissa um sumarið

Síðustu vikur hefur umferð aukist jafnt og þétt á höfuðborgarsvæðinu og í þar síðustu viku var hún farin að nálgast umferðina í fyrra, það munaði bara örfáum prósentustigum. Í síðustu viku minnkaði hún á ný, var tæplega 12% minni en í fyrra. Vegagerðin telur að Uppstigningadagur kunni að hafa haft áhrif þar. Óvissa ríkir um framhaldið,  það hvernig umferðin verður í sumar veltur á því hvort Íslendingar ferðist innanlands í meiri mæli en áður. Ljóst er að margar bæjarhátíðir verða blásnar af, umferðin verður því kannski öðruvísi og minna um staðbundna flöskuhálsa. Vegagerðin telur hugsanlegt að umferðin um Hringveginn verði meiri í ár en í fyrra, á móti myndi hún þá dragast saman á Höfuðborgarsvæðinu, þegar borgarbúa bruna út á land. Næstu vikur ættu að gefa vísbendingar um hvað verður.

Fáir bílar geta þyrlað upp miklu ryki 

Hér sést loftmengun helst í froststillum á veturna og í lok vetrar þegar bílar eru enn á nagladekkjum og göturnar orðnar þurrar. Almennt segir Þorsteinn að umferðarmagnið hafi mjög greinileg áhrif á loftmengun, einkum styrk niturdíoxíðs og annarra efna sem koma úr útblæstri. 
Á höfuðborgarsvæðinu séu áhrif morgun- og síðdegistraffíkurinnar dag hvern mjög greinileg. Vegna veðuráhrifa helst styrkur mengunarinnar þó ekki alveg í hendur við útblásturinn. Þorsteinn skýtur á að minnki umferð um helming dragist loftmengun kannski saman um 20%. 

Svifryksmengun getur til dæmis verið mikil þó umferðin sé varla svipur hjá sjón. „Bara sem dæmi á Akureyri, fljótlega eftir að samkomubann var sett á þá loksins urðu göturnar þar snjólausar og þornuðu, þá komu nokkrir dagar með mikilli svifryksmengun, í miðju samkomubanni. Ef göturnar eru óhreinar þá þarf ekki marga bíla til að þyrla upp miklu ryki.“

Minni loftmengun gæti magnað Monsún-tímabilið

Í Bretlandi er líka unnið að því að meta áhrif faraldursins á loftmengun. Það er vandasamt þar sem veðurskilyrði þar hafa verið sérstök, síðastliðnar vikur. 

Til að flækja hlutina má nefna að loftmengunin sjálf kann að hafa áhrif á veðurfar. Breska blaðið Guardian ræddi við vísindamenn sem spá því að Monsún-tímabilið á Indlandi verði heitara og öflugra en alla jafna, því sólin á greiðari leið að yfirborði jarðar, það eru ekki ótal mengunarafnir sem standa í vegi fyrir henni.

Auðvelt að meta losun gróðurhúsalofttegunda

Í samkomubanninu dró ekki bara úr loftmengun. Það dró líka úr losun gróðurhúsalofttegunda sem stuðla að hlýnun jarðar. Það er auðveldara að átta sig á þeim samdrætti. Hann er algerlega í takt við samdráttinn í umferðinni. 

Þannig má segja að fyrst umferð á höfuðborgarsvæðinu dróst saman um tæp 30% í apríl, hafi losun gróðurhúsalofttegunda frá umferð líka dregist saman um tæp 30%. Rokið kemur ekki að neinu gagni þarna.  Þá eru menn bara að horfa á losunina, ekki lókal styrk á hverjum stað.  Þá skiptir veðrið ekki máli heldur bara heildarlosunin. Ef við horfum á flugumferð hérna, ég held að flugumferð hafi minnkað um 98%, þá hefur losun gróðurhúsalofttegunda frá flugi minnkað um sömu tölu, 98%.“ 

Óttast bakslag

Þorsteinn telur að þetta skili sér í loftslagsbókhaldi stjórnvalda fyrir árið 2020, það dragi að minnsta kosti úr losun frá umferð. Sumir hafa áhyggjur af því að faraldurinn og kreppan í kjölfar hans leiði til bakslags í umhverfis- og loftslagsmálum. Það er búið að fresta loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, sem átti að fara fram í Glasgow í haust. Sveitarfélög í Evrópu eru byrjuð að ræða hvernig megi forðast bakslag.

Sums staðar hefur áhersla á að draga úr bílaumferð og þar með loftmengun og gróðurhúsalofttegundum aukist. Í Mílanó hefur 35 kílómetra vegkafla verið breytt í göngugötu, Í París á öll þjónusta að vera í innan við 15 mínútna fjarlægð frá heimilum fólks og Í Manchester á að göngugötuvæða stóran hluta miðbæjarins, að vísu er nú búið að fresta þeim áformum um ár vegna Covid. Fleiri borgir í Bretlandi hafa slegið slíkum aðgerðum á frest. 

Vonast eftir hugarfarsbreytingu

Sumir vona að hægur taktur, heimavinna og hjólaæði síðustu mánaða leiði til þess að fólk temji sér umhverfisvænni lífstíl en það gerist auðvitað ekki af sjálfu sér. Telur Þorsteinn að stjórnvöld hér hafi nýtt tímann til að huga að því hvernig breyta megi ferðavenjum til lengri tíma litið? „Ég veit ekki hvort stjórnvöld hafi endilega nýtt tímann akkúrat núna en ég vona að þetta verði til þess að ýta við fólki, það verði kannski einhver hugarfarsbreyting. Margir eru að sjá að það er hægt að hjóla, það er hægt að ganga og það er alveg hægt að halda stóra fjarfundi og það virkar alveg ágætlega, þó það sé öðruvísi og hafi kosti og galla. Ég var sem dæmi, nýlega á stórum evrópskum fundi þar sem voru hundrað þátttakendur. Það gekk alveg furðanlega vel.“