Laus úr haldi lögreglu eftir útkall að Ölfusá

Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV
Rúmlega tvítugur karlmaður sem var handtekinn í nótt vegna útkalls að Ölfusá hefur verið látinn laus úr haldi lögreglu. Samkvæmt tilkynningu til lögreglu í nótt féll maður í Ölfusá. Það reyndist ekki rétt. Maðurinn viðurkenndi að hafa hringt eftir aðstoð lögreglu vegna málsins og gaf sínar skýringar á því, að því er segir í tilkynningu á Facebook-síðu Lögreglunnar á Suðurlandi.

Málið telst upplýst og verður nú sent sína leið til ákæruvalds sem ákveður framhaldið. 

Lögregla fékk tilkynningu um klukkan hálf eitt í nótt um að maður hefði fallið í Ölfusá. Björgunarsveitir, lögregla, slökkvi- og sjúkraflutningalið voru kölluð út. Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn, sagði í samtali við fréttastofu að vissar grunsemdir hefðu vaknað þegar tilkynningin barst, um að ekki væri allt með felldu, en að allt tiltækt lið hafi verið sent á vettvang enda hafi engan tíma mátt missa ef útkallið hefði verið á rökum reist. Maðurinn fannst í runna við ána og var leitinni þá hætt. Samkvæmt tilkynningunni til lögreglu í nótt var það þessi tiltekni maður sem hafði fallið í ána. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi

Tengdar fréttir