Faldi sig í runna við Ölfusá á meðan leitað var

Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV
Rannsókn stendur yfir á tilkynningu í nótt um að maður hafi fallið í Ölfusá. Tilkynningin reyndist vera gabb. Björgunarsveitir, lögregla, sjúkraflutningalið og slökkvilið voru kölluð út og stóð leitin í um tvo tíma. Sá sem tilkynnti um málið hafði falið sig í runna við ána. Samkvæmt tilkynningunni var það hann sjálfur sem hafði farið í ána.

Tilkynning um fallið barst klukkan 00:36 og þá var fólk strax kallað út til leitar. Henni var lokið klukkan 02:35. Að sögn Odds Árnasonar, yfirlögregluþjóns hjá Lögreglunni á Suðurlandi, vaknaði strax grunur, þegar tilkynningin barst, um að ekki væri allt með felldu. Allt tiltækt lið hafi þó verið kallað út enda hafi engan tíma mátt missa ef útkallið hefði verið á rökum reist og manneskja hafi fallið í ána. 

Viðurlög við gabbi sem þessu eru sekt og allt að þriggja mánaða fangelsi, samkvæmt hegningarlögum. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi

Tengdar fréttir