Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Það sem ég tala um þegar ég tala um hlaup – Murakami

Mynd: Samsett mynd / RÚV

Það sem ég tala um þegar ég tala um hlaup – Murakami

26.05.2020 - 23:07

Höfundar

„Þetta er ekki bara bók fyrir hlaupara og heldur ekki hinn venjulega Murakami aðdáanda,“ segir Kristján Hrafn Guðmundsson þýðandi um bókina Það sem ég tala um þegar ég tala um hlaup eftir japanska rithöfundinn Haruki Murakami sem er bók vikunnar á Rás 1.

Það sem ég tala um þegar ég tala um hlaup sker sig rækilega úr í höfundaverki Murakamis. Þó að í bókinni séu einstaka kunnugleg stef og fyrirbæri úr skáldverkum hans er hún alfarið um Murakami sjálfan og ástríðufullan áhuga hans á langhlaupum.

Bókin, sem kom fyrst út í Japan árið 2007, er gjarnan merkt sem endurminningar og Murakami segir meðal annars frá því hvernig það kom til að hann ákvað að selja djassbar sem hann rak í Tókýó, byrja að skrifa skáldsögur og reima á sig hlaupaskóna. „Þeir sem hugsuðu sér gott til glóðarinnar þegar þessi bók var að koma út 2007, þeir kannski urðu fyrir svolitlum vonbrigðum. Vegna þess að hann hleypir fólki aðeins að sér og skoðar sig og segir frá sér en þetta er alltaf út frá hlaupunum, sjálfsaganum, einbeitingu, úthaldi. Einhver sem vildi vita meira um hjónabandið, barnleysið eða samband hans eða sambandsleysi sitt við föðurinn, það er ekkert um það í þessari bók.“

Þetta er einfaldlega bók um hlaup. Hún teygir þó anga sína í nokkrar bókmenntagreinar og erfitt er að setja bókina endanlega á einn bás eins og Kristján Hrafn þýðandi kemst að orði. „Þetta er kallað minningarbók, ferðabók og svo líka æfingadagbók. Þetta hverfist jú um þegar Murakami er að æfa fyrir New York maraþonið árið 2005 og þá fimm mánuði sem hann tók í að æfa fyrir það. En svo fer hann um víðan völl og rifjar upp af hverju hann er hlaupari, af hverju hann er kominn á þennan stað í lífinu, af hverju hann er rithöfundur og tengir þetta saman.“

Gestir Bókar vikunnar eru Steinunn Haraldsdóttir, íslensku- og þýðingafræðingur og Guðni Páll Pálsson, afrekshlaupari.