Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Telja gerlegt að bjóða sýnatöku á Keflavíkurflugvelli

26.05.2020 - 12:26
Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Það er gerlegt að bjóða þeim sem koma til Íslands frá 15. júní að fara í skimun á Keflavíkurflugvelli í stað þess að sæta tveggja vikna sóttkví, eða skila inn vottorði sem sýnir niðurstöðu úr sýnatöku erlendis. En til þess að svo megi verða þarf að ráðast í ýmsar aðgerðir. Þetta er niðurstaða verkefnastjórnar um sýnatöku fyrir COVID-19 á landamærum.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra kynnti niðurstöður verkefnastjórnarinnar á ríkisstjórnarfundi í morgun. Svandís vildi ekki veita fréttastofu nánari upplýsingar um niðurstöðurnar fyrir hádegisfréttir, en þær verði birtar eftir hádegi. Fram kom á upplýsingafundi Almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra og Landlæknis í gær að sóttvarnalæknir myndi fara yfir niðurstöðurnar og skila síðan tillögum til heilbrigðisráðherra.

Í dag verður einnig birt mat Landspítalans á áhættunni við að fara þessa leið við opnun landsins. Matið var unnið af forstjóra spítalans, veirufræðideildinni og farsóttarnefnd og barst ráðuneytinu um miðja síðustu viku. 

Verkefnastjórnin er skipuð fulltrúum frá Landspítalanum, sóttvarnarlækni, lögreglunni á Suðurnesjum, Ríkislögreglustjóra, Isavia og fulltrúi heilbrigðisráðuneytisins er starfsmaður nefndarinnar. 
 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV
holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV