Stuðningsmenn Bolsonaros fæla fjölmiðla frá

26.05.2020 - 06:50
epa08443533 Supporters of the President of Brazil, Jair Bolsonaro (not pictured), insult journalists covering the exit of the Palacio da Alvorada (Presidential residence), in Brasilia, Brazil, 25 May 2020. Brazil has the second most confirmed cases of COVID-19 worldwide.  EPA-EFE/Joedson Alves
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Tveir af stærri fjölmiðlum Brasilíu tilkynntu í gær að þeir ætli að hætta að greina frá óformlegum blaðamannafundum forsetans Jair Bolsonaro fyrir utan forsetahöllina. Áreitni af hálfu stuðningsmanna forsetans og skortur á öryggisgæslu eru helstu ástæður þess að fjölmiðlasamsteypan Globo og dagblaðið Folha de Sao eru hættar að mæta á fundina.

Bolsonaro nýtir mörg tækifæri til þess að rakka niður helstu fjölmiðla landsins. Hann á það til að heilsa stuðningsmönnum fyrir utan forsetahöllina, og gefur sér þá stundum tíma til þess að ræða við fjölmiðla. Þessir óformlegu fundir hafa þó oft tekið aðra stefnu, þegar stuðningsmenn forsetans þjarma að fjölmiðlamönnum, án þess að fámennt öryggislið forsetans beiti miklu afli til þess að halda þeim frá.

Paulo Tonet Camargo, varaformaður Globo Group, sendi ráðherra þjóðaröryggismála bréf þess efnis að blaðamenn samsteypunnar verði margoft fyrir móðgunum og hrópum af hálfu stuðningsmanna forsetans. Öryggisverðir forsetans geri ekkert til þess að aftra þeim frá því. Camargo segir árásirnar hafa ágerst með tímanum. 

Dagblaðið Folha greinir frá því að fundurinn í gær hafi verið dropinn sem fyllti mælinn. Bolsonaro heilsaði þá blaðamönnum með setningunni: „Þegar þið farið að segja sannleikann skal ég ræða aftur við ykkur." Stuðningsmenn hans byrjuðu þá að æpa ókvæðisorð í átt að blaðamönnum. Folha de Sao áformar að halda umfjöllun um fundina áfram þegar hægt verður að tryggja öryggi fjölmiðlamanna við forsetahöllina.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi