Lögðu hald á gögn í húsi grunaðs barnaníðings

26.05.2020 - 17:30
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Rannsókn lögreglu á meintu kynferðisbroti starfsmanns í Hraunavallaskóla í Hafnafirði miðar vel áfram. Karlmaðurinn, sem er á þrítugsaldri og starfar í frístundaheimili skólans, er grunaður um að hafa brotið kynferðislega gegn tveimur nemendum í 1. bekk í síðustu viku.

Í tilkynningu frá lögreglu segir að húsleit hafi verið gerð á heimili mannsins þar sem lagt var hald á gögn í þágu málsins. Þá hafa skýrsur verið teknar af börnunum í barnahúsi.

Maðurinn var handtekinn í síðustu viku og úrskurðaður í nokkurra daga gæsluvarðhald í Héraðsdómi Reykjaness. Sá úrskurður var kærður til Landsréttar sem felldi hann úr gildi á föstudag. Maðurinn var því látinn laus. Í niðurstöðu Landsréttar segir að lögregla hafi ekki sýnt fram á að rannsóknarhagsmunir krefjist þess að maðurinn sé í haldi.

solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi