Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ísrael og kaldhæðni stjórnmálanna

Mynd: EPA-EFE / EPA
 Eftir þrennar kosningar á innan við ári, er loks komin ný ríkisstjórn í Ísrael. Í forsetisráðherrastólnum situr þó áfram gamall refur, Benjamín Netanyahu. Að minnsta kosti næsta hálfa árið eða svo, þar til Benny Gantz tekur við stjórnartaumunum. Gantz hefur verið harður andstæðingur Netanyahus en loks hefur þá tekist að sættast á að mynda saman ríkisstjórn. En hvers vegna hefur þetta tekið svona langan tíma?

Hvers vegna ná þessir ólíku stjórnmálamenn saman núna og hvaða áhrif mun þessi ríkisstjórn hafa á frekari landtökubyggðir á Vesturbakkanum?

Pólitík er list málamiðlanna

Pólitík er list málamiðlanna, sagði einhver einhvern tímann. Til þess að komast til valda, þarf að feta þröngan stíg. Það þarf að halda flestum ánægðum, alls ekki öllum, en flestum, og passa sig á því að segja ekki of mikið. Láta ekki of mikið uppi. Þú heldur þó ekki að þú getir orðið páfinn í Róm, kæri hlustandi, ef þú hefur básúnað allar þínar óþægilegu skoðanir alla þína preststíð? Ónei. Til þess að komast á toppinn, þarf kænsku. En maður þarf víst líka að geta lagt skoðanir sínar til hliðar, að einhverju leyti, og að minnsta kosti um stundarsakir - eigi maður að vinna með öðrum. Forsætisráðherra Íslands kemur til að mynda úr flokki hernaðarandstæðinga - en Ísland er samt sem áður í NATÓ. Svona er þetta bara, svona virkar blessuð pólitíkin - bæði hér heima, og einnig í Ísrael, landinu helga fyrir botni Miðjarðarhafs.

Þar hefur verið stjórnarkreppa í rúmt ár og þrennar kosningar að baki á einu ári. Hvers vegna? Jú, vegna þess að stjórnmálamenn voru víst ekki tilbúnir að miðla málum. málamiðla. En ekki lengur. Benjamín Netanyahu og Benny Gantz hafa komið sér saman um myndun nýrrar ríkisstjórnar, menn sem hafa lengi eldað grátt silfur saman. Sá síðarnefndi lofaði því eitt sinn að koma þeim fyrrnefnda frá völdum fyrir fullt og allt. Enginn er víst öruggur fyrir kaldhæðni stjórnmálanna og krafti hennar.  

En hvaða þýðingu hefur myndun þessarar nýju ríkisstjórnar fyrir framtíð fólksins sem býr í landinu helga, ekki aðeins Ísraela heldur einnig Palestínumenn?

epa08329017 (FILE) -  Israeli Prime Minister Benjamin Netanyahu (L), Israeli President Reuven Rivlin (C) and Benny Gantz, former Israeli Army Chief of Staff and chairman of the Blue and White Israeli centrist political alliance (R) join hands as they attend a memorial service for late Israeli president Shimon Peres at Mount Herzl, Israel's national cemetery, in Jerusalem, 19 September 2019. Media reports that Netanyahu has cracked down on advance talks about going to unity government following the state crisis  dealing with the spread of the SARS-CoV-2 coronavirus.  EPA-EFE/ABIR SULTAN
Benjamin Netanyahu og Benny Gantz takast í hendur. Á milli þeirra stendur Reuven Rivlin forseti. Mynd: EPA-EFE - EPA
Netanyahus og Gantz takast í hendur þegar samkomulagið var í höfn. Milli þeirra er Reuven Rivlin, forseti landsins.

Af hverju tók þetta svona langan tíma?

Frá því apríl í fyrra hefur verið stjórnarkreppa í Ísrael. Þrennar kosningar til ísraelska þingsins, Knesset, hafa verið haldnar á þessu tímabili, en enginn einn flokkur vann afgerandi sigur og ekki tókst að mynda meirihluta. Í kosningunum í apríl í fyrra fengu tveir stærstu flokkarnir, Bláhvíti-flokkur Bennys Gantz og Likud-flokkurinn, flokkur Netanyahus, 35 sæti hvor. Sitjandi forsetisráðherrann Netanjahú fékk stjórnarmyndurnarumboð en tókst ekki að mynda meirihluta, en til þess hefði hann þurft 61 þingsæti. Í kjölfarið var þingið leyst upp

Í september á síðasta ári fóru svo aðrar kosningar fram, þar sem Bláhvítir höfðu eitt sæti af Likud frá síðustu kosningum. En, aftur fékk Netanyahu stjórnarmyndunarumboð og aftur mistókst honum að mynda ríkisstjórn. Fékk þá Benny Gantz umboð til stjórnarmyndunar, en allt kom fyrir ekki, honum mistókst einnig að mynda meirihluta. Í kjölfarið var þingið leyst upp öðru sinni á fimm mánuðum.

Og í mars á þessu ári, fóru þriðju kosningarnar fram. Nú fékk Likud-flokkurinn fleiri sæti en hinir Bláhvítu, en Gantz þótti njóta meiri stuðnings í þinginu, að mati forseta landsins, og fékk hann því stjórnarmyndunarumboðið. Og hvernig gekk það, jú þú giskaðir rétt. Það gekk hreint ekki neitt

epa08063656 General view of Knesset members during a vote on a bill to dissolve the Israeli Parliament at the Knesset plenum (parliament) in Jerusalem, Israel, 11 December 2019. Media reports state that the Israeli government vote on a bill to dissolve the Israeli Parliament and will go to a third elections presumably on 02 March 2020 after negotiations talks between the Likud Party and the Blue and White Party failed.  EPA-EFE/ABIR SULTAN
Ísraelska þingið, Knesset. Mynd: EPA-EFE - EPA
Frá Knesset, ísraelska þinginu.

Það þarf engan snilling ti að sjá að þeir Netanyahu og Gantz reyndu ekki að sannfæra hvor annan um að mynda ríkisstjórn. Það hefði jú gengið eins og skot, enda Likud og Bláhvítir tveir stærstu flokkarnir á þinginu. Fyrir kosningarnar í mars lofaði Gantz því að hann myndi ekki mynda ríkisstjórn með Netanyahu, sama hvað! Meira um það á eftir. Hvar endar þetta, spyr maður sig?

Af hverju ná Gantz og Netanyahu saman núna?

„Það stefndi auðvitað um tíma í fjórðu kosningarnar,“ segir Ólöf Ragnarsdóttir, fréttamaður og liðsmaður Heimskviða. Hún hefur fylgst vel með ísraelskum stjórnmálum síðustu mánuði. En eitt og annað hefur gerst síðan í mars, og ef þú hefur ekki búið í helli eða sætt einangrun í öryggisfangelsi, þá veistu líklega að heimsfaraldur hefur geisað og Ísrael hefur ekki sloppið við hann. 

„Síðustu kosningar voru í byrjun mars, þannig að Ísraelar eru nú þegar búnir að gagna til kosninga í faraldrinum, og það var ekki sérlega vænlegt að þurfa að fara í aðrar kosningar,“ segir Ólöf. Alls staðar tekst kórónuveirunni að ota sínum tota, og nú er hún farin að hafa áhrif á ísraelsk stjórnmál. Skömmu eftir kosningarnar í mars fór veiran að breiðast út af miklum mætti í Ísrael og Benny Gantz tók 180 gráðu snúning. Nú væri hann tilbúinn að vinna með Netanyahu. Það væri neyðarástand í landinu og Ísrael þyrfti starfandi ríkisstjórn. 

„Ástandið er orðið mun verra og það sem Gantz sagði að minnsta kosti opinberlega, að þetta hefði bara verið nauðsynlegt, til að takast á við faraldurinn. Það hefði bara þurft að koma á stjórn í landinu,“ segir Ólöf. Þeir Gantz og Netanyahu hafi því verið nauðbeygðir til þess að vinna saman, eða hvað?

„Það lítur að minnsta kosti þannig út og það er sú opinbera skýring sem hefur verið gefin, En þegar kemur að stórum málum, t.d. varnarmálum sem eru mjög stórt málefni í Ísrael, og hvað viðkemur landtökubyggðuðnum, þá greinir þá ekkert sérstaklega mikið um málefnalega.“

Já, þetta eru nefnilega ekki svo ólíkir flokkar. Bláhvíta bandalagið er í miðjunni á meðan Likud flokkast lengra til hægri, en flokkarnir eru báðir íhaldssamir og leiðtogar þeirra yfirlýstir zíonistar. Hvers vegna í ósökpunum gekk þá svona illa láta enda ná saman? Það er vegna þess að Benjamín Netanyahu er einn umdeilasti stjórnmálamaður síðari ára, stjórnmálaður sem Benny Gantz hefur sagt gjörspilltan.

„Og í rauninni hefur hann byggt sitt framboð á því að koma Netanyahu burt, þannig þetta er ótrúlega mikill viðsnúningur,“ segir Ólöf.  Já, pólitíkin er list málamiðlana og allt það, en kannski er eitthvað til í því sem Gantz segir, enda sætir Netanyahu nú ákæru fyrir spillingu og mútuþægni.

epa08441335 Israeli Prime Minister Benjamin Netanyahu (C) wearing a face mask, stands inside the court room on the first day of his trial for alleged corruption crimes in Salah El-Din, East Jerusalem, 24 May 2020. Netanyahu has been charged with counts of bribery, fraud and breach of trust, becoming the first Israeli leader to be tried for alleged corruption while still in office. The trial comes only a week after Netanyahu was sworn into office for another term following a rare power-sharing deal with his adversary, who is set to take over as prime minister in 18 months as he switches roles with Netanyahu, who would then become Gantz's deputy.  EPA-EFE/RONEN ZVULUN / POOL
 Mynd: EPA-EFE - REUTERS POOL
Netanyahu í dómssal þann 24. maí. Heimskviður voru sendar út tveimur dögum áður en réttarhöldin hófust.

Ákærurnar á hendur Netanyahu

Við höfum áður fjallað um ákærurnar yfir Netanyahu í Heimskviðum, en á þessum tímamótum er vert að rifja þær upp.

„Í upphafi voru þetta samtals fimm mál í rauninni, og þau snúast um mútur, fjársvik og umboðssvik,“ segir Ólöf. „Fyrsta málið var formlega opnað í desember 2016, þar eru bæði Netanyahu og eiginkona hans sökuð um að þiggja allskonar gjafir frá ríkum einstaklingum, og boðið greiða fyrir jákvæða fjölmiðlaumfjöllun.“

Það var þó ekki fyrr í nóvember síðastliðnum sem Netanyahu var formlega ákærður, þótt málið sé búið að vera í gangi í mörg ár. Næsta sunnudag, 24. maí, eiga réttarhöldin svo að hefjast. Þau áttu að hefjast í mars en Netanjahú bað um að þeim yrði seinkað. Því var hafnað af réttinum, en þá kom kórónuveiran forsætsiráðherranum til bjargar. Nú er loks komið að þessu og Netanyahu sest í réttarsalinn á sunnudaginn. 

„En það er ekki búist við að það niðurstaða verði komin í þetta, þ.e hvort hann verði dæmdur eða ekki. Hann þarf örugglega ekkert að hugsa um það upp á forsætisráðherraembættið strax,“ segir Ólöf, og Netanyahu sé ekki á leið í fangelsi. Allavega ekki strax.

„Þessi réttarhöld eiga eftir að dragast eins lengi og hægt er. Hann er búinn að ná að draga málið mjög lengi nú þegar, og ef hann verður dæmur, þá mun hann áfrýja. Þannig við erum örugglega að horfa á mörg ár, þangað til við sjáum niðurstöðu í þessu máli,“ segir Ólöf.

Já, það er ekki á hverjum degi sem forsætisráðherra hefur nýtt kjörtímabil á því að mæta í réttarsal, en Benjamin Netanyahu hefur svo sem sjaldan fetað troðnar slóðir í pólitík. Hann hefur gengt embætti forsætisráðherra frá árinu 2009, þar áður var hann forsætisráðherra frá 1996-1999, og gegnir áfram embættinu næstu 18 mánuði. Að minnsta kosti. En þá, á Benny Gantz að taka við. Maðurinn sem hefur sagt að það gangi ekki að vera með forsætisráðherra sem sætir ákæru fyrir spillingu og mútur. 

„Hann hefur sagt að það sé ekki lengur hægt að hafa Netanyahu við stjórn, hann sé búinn að eitra allt stjórnmálakerfið í Ísrael og svo framvegis. En núna ætla þeir að vinna saman, en það á eftir að koma í ljós hvernig þessari ríkisstjórn gengur að vinna saman. Netanyahu verður forsætisráðherra í átján mánuði og stjórnmálaskýrendur eru svolítið margir á sama máli um það að hann Gantz fái ekkert að stjórna, þegar komi að því að hann eigi að taka við þá verði bara komið eitthvað annað; deila við Íran, landtökubyggðirnar eða eitthvað annað, og Netanyahu sannfæri sjálfan sig og aðra um að hann sé sá eini sem geti í raun stjórnað þessu landi,“ segir Ólöf.

Hann muni þá frekjast til að sitja áfram í embætti að átján mánuðum liðnum?

„Já í rauninni,“ segir Ólöf. Svo á Gantz auðvitað að vera varnarmálaráðherra, sem er mjög stórt í Ísrael, af því þetta er eitt mikilvægasta embætti, en jafnvel miðað við það sem ég hef lesið og séð sérfræðinga í ísrael segja þá býst enginn við því að hann fái samt að stjórna neinu, að Netanyahu eigi bara samt eftir að ráða öllu.“

US President Donald J. Trump (R) shakes hands with Prime Minister of Israel Benjamin Netanyahu while unveiling his Middle East peace plan in the East Room of the White House, in Washington, DC, USA, 28 January 2020. US President Donald J. Trump's Middle East peace plan is expected to be rejected by Palestinian leaders, having withdrawn from engagement with the White House after Trump recognized Jerusalem as the capital of Israel. The proposal was announced while Netanyahu and his political rival, Benny Gantz, both visit Washington, DC.
 Mynd: MICHAEL REYNOLDS - EPA
Donald Trump og Netanyahu fagna „friðaráætluninni“ í janúar síðastliðnum.

„Friðaráæltunin“ og frekari innlimun landsvæðis

Ríkisstjórnin sem nú tekur við völdum í Ísrael er sú stærsta sem sést hefur frá stofnun Ísraelsríkis. Ráðherrarnir verða 36 talsins, hvorki meira né minna. En hvaða verkefni eru á döfinni? Það ætti kannski ekki að koma neinum á óvart, að innlimun frekara landsvæðis á Vesturbakkanum, þar sem Palestínumenn eru í meirihluta, sé í forgangi. Nýjar landtökubyggðir á Vesturbakkanum eru á teikniborðinu og svo gæti farið að strax í júní yrði ráðist í frekari uppbyggingu fyrir Ísraela í Palestínu. 

Þegar ríkisstjórnin tók við völdum í vikunni sagði Netanyahu orðið tímabært að framfylgja ísraelskum lögum, og skrifa nú nýjan glæstan kafla í sögu zíonisma. Er Netanjahú hér að vísa í fyrirhugaða stækkun landnemabyggða, eitthvað sem hefur hlotið blessun Bandaríkjastjórnar og er í samræmi við hina svokölluðu og umdeildu friðaráætlun Donalds Trumps Bandaríkjaforseta og Netanyahus frá því í janúar. Ólöf segir að ansi margt jákvætt hafi gerst fyrir Ísrael síðan Trump tók við fosetaembættinu í Bandaríkjunum, til að mynda sú ákvörðun að færa bandaríska sendiráðið í Ísrael til Jerúsalem frá Tel Aviv, og svo auðvitað sú skýra afstaða sem Bandaríkjastjórn hefur tekið varðandi landtökubyggðirnar; að líta ekki á þær sem brot á alþjóðalögum.

Og í þessari umdeildu friðaráætlun, sem Palestínumenn komu hvergi nálægt, er kveðið á um að Jerúsalem, sem er að stórum hluta heimkynni Palestínumanna, verði höfuðborg Ísraels og landtökubyggðir Ísraelsmanna á Vesturbakkanum verði viðurkenndar sem ísraelskt svæði. Þar að auki fái Ísrael yfirráð yfir Jórdandal. 

„Í þessari friðaráætlun Trumps er eignarhald Ísraels á þessum svæðum viðurkennt,“ segir Ólöf, og bætir því að það sé engin tilviljun að ný ríkisstjórn Netanyahus og Gantz ætli að drífa í því að koma upp frekari landtökubyggðum, nú þegar þeir séu búnir að fá grænt ljós frá Bandaríkjunum til þess. Landtökubyggðum, sem eru samkvæmt alþjóðalögum, ólöglegar. „En það skiptir ekki máli ef að Bandaríkin eru með þér í liði,“ segir Ólöf.

Í friðaráætluninni umdeildu kemur fram að nú fái Palestínumenn loksins skýrt svæði til umráða, bæði á Vesturbakkanum og á Gaza-svæðinu - og að þetta sé í fyrsta sinn sem Ísrael samþykki tillögu að landamærum fyrir sjálfstætt ríki Palestínu. En þetta er auðvitað ekki alveg svona einfalt. 

„Um hvað snýst þetta? Það er alltaf verið að tala um þessa tveggja ríkja lausn, að paelstínumenn eigi rétt á að stofna sitt eigið ríki. Og það er á einhverju ákveðnu landsvæði, en á sama tíma eru Ísraelsmenn að byggja á því landssvæði og núna á að fara að innlima það í Ísrael,“ segir Ólöf. 

epa08211609 President of the State of Palestine Mahmoud Abbas (C) holds up a map as he addresses the UN Security Council about the situation in the Middle East, including the Palestinian question at United Nations headquarters in New York, New York, USA, 11 February 2020.  EPA-EFE/JASON SZENES
Mahmoud Abbas sýndi á korti hvernig Palestína liti út yrðu hugmyndir Bandaríkjamanna að veruleika Mynd: EPA-EFE - EPA
Mahmoud Abbas, forseti Palestínu.

Viðbrögð Palestínumanna

Væri það svo að Palestínumenn væru í raun og veru að fá að það landsvæði sem þeir telja tilheyra sér og eru sáttir við, þá hefði Mohammed Abbas, forseti Palestínu, líklega ekki lýst því yfir í vikunni að Palestína væri laus undan skuldbindingum Óslóarsamkomulagsins frá 1993. Samkomulagi sem felur meðal annars í því að Frelsissamtök Palestínu PLO, viðurkenni tilvist Ísraelsríkis. Frá og með deginum í dag, sagði Abbas, eru Frelsisamtök Palestínu og ríkið Palestína laus undan öllum samþykktum sem gerðar hafa verið við bandarísk og ísraelsk stjórnvöld. 

Þessi stóru orð forsetans koma í kjölfar fyrirhugaðra stækkunaraðgera landtökubyggða Ísraela á Vesturbakknum. Með ákvöðrun sinni hafi Ísraelsríki gert Óslóarsamkomulagið að engu, en í því er einnig kveðið á um að Palestínumenni fái til umráða svæði á Vesturbakkanum og á Gaza-svæðinu. Svæði, sem virðist nú ætla að halda áfram að minnka.

Það gætu því verið róstusamir tímar fram undan fyrir nýja ríkisstjórn Ísraels, og í landinu helga.