Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

„Í byrjun næstu viku getum við sagt skýrt af eða á“

Mynd: Kastljós / Kastljós
Svandís Svarsdóttir, heilbrigðisráðherra, segir að endanleg ákvörðun um það hvort að áætlun ríkisstjórnarinnar um að opna landamærin 15. júní verði að veruleika ráðist eftir helgi. „Það er í byrjun næstu viku sem við getum sagt skýrt af eða á - hvort við gerum þetta og hvernig við gerum þetta.“ Það ráðist af niðurstöðu sóttvarnarlæknis sem fer yfir skýrslu verkefnastjórnar og skilar heilbrigðisráðherra umsögn. Aðkoma Íslenskrar erfðagreiningar að skimunum er ekki útilokuð.

Stefnt er að því að opna landið þann 15. júní næstkomandi. Verkefnisstjórn sem heilbrigðisráðherra skipaði hefur nú skilað niðurstöðum sínum um hvernig sýnatöku fyrir COVID-19 á landamærum verði háttað. Í stað þess að fara í tveggja vikna sóttkví fari ferðamenn sem komi til landsins í sýnatöku á Keflavíkurflugvelli eða framvísi vottorði sem sóttvarnalæknir metur jafngilt.

Útilokar ekki aðkomu Íslenskrar erfðagreiningar

Heilbrigðisráðherra var gestur í Kastljósi kvöldsins. Þar sagði hún að stærstu tíðindi dagsins væru að áformin væru gerleg, þó óvissuþættirnir væru margir. Nauðsynlegt væri til að mynda að uppfæra greiningargetu veirufræðideildar Landspítalans en deildin er ekki í stakk búin til að vinna nema 500 veirusýni á dag á Keflavíkurflugvelli. Nauðsynlegt sé að deildin geti tekist á við vanda almannavarnaástands af þessu tagi í framtíðinni. Svandís segir ekki útilokað að farið verði í samstarf við Íslenska erfðagreiningu til að auka afkastagetu í þessu verkefni.

„Það sem við erum að tala um þarna er að það þurfi að ráðast í einhverskonar samkomulag við væntanlega Decode sem hefur þá yfir þeirri greiningargetu að ráða sem þarf til þess að brúa þetta bil.“

Verkefnastjórnin hafi lagt það til í skýrslu sinni og það sé eitt af því sem þurfi nú að taka afstöðu til og þá útfæra hvernig því samstarfi yrði háttað.

Kemur til greina að farþegar borgi hluta kostnaðar

Svandis segir að einnig þurfi að ræða hvernig kostnaði verði háttað, hvort hann falli einungis á ríkið eða hvort farþegar verði látnir taka þátt.

„Þessi kostnaður er að hluta til þessi tækjabúnaður veirufræðideildar sem að við þyrftum að ráðast í hvort sem er. Hins vegar finnst mér, og við höfum rætt það og forsætisráðherra hefur talað fyrir því, að að minnsta kosti fyrstu skrefin yrðu þannig að það myndi falla á ríkið en síðan finnst mér það vel koma til álita að þegar að þetta væri komið í gang, eftir einhverja daga eða eitthvað slíkt, að þá myndi kostnaðurinn falla á farþega.“

Hún segir að þátttaka farþega í kostnaði komi vel til greina en að það þyrfti að undirbúa með góðum fyrirvara og tryggja að farþegar væru allir vel upplýstir.

Líf og heilsa númer eitt

Svandís segist taka undir mat sóttvarnarlæknis að betra sé að opna landamærin fyrr en seinna, á meðan minni umferð sé til landsins og þrýstingur frá ferðaþjónustunni sé ekki of mikill. Þannig megi prófa fyrirkomulagið og endurmeta það svo. Hún þvertekur fyrir að stjórnvöld hafi orðið fyrir þrýstingi frá ferðaþjónustunni eða öðrum.

„Mitt flagg snýst um heilsu og heilbrigði fólks, það er flaggið sem ég geng undir. Ég sæki mín ráð til sóttvarnalæknis og sem betur fer er það útgangspunktur íslenskra stjórnvalda, og það hefur okkar gæfa hingað til, að líf og heilsa hefur verið númer eitt í okkar ákvörðunum. “