Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Horfðu á allt hverfa á einni nóttu

Mynd:  / 

Horfðu á allt hverfa á einni nóttu

26.05.2020 - 13:08

Höfundar

Þeir sem starfa í kringum tónleikahald horfðu á iðnaðinn nánast gufa upp á einni nóttu þegar að samkomubann tók gildi. Nú stefnir í að kreppan þar verði lengri og dýpri en áður var gert ráð fyrir en reikna má með að meiri áhersla verði sett á íslenska viðburði frekar en stórtónleika með erlendum stjörnum á næstu misserum.

„Þessi bransi er eins og flugbransinn, var þvílíkur uppgangur búinn að vera í mörg ár á tónleikasviðinu. Tónlistarmenn fóru að lifa á tónleikahaldi. Í stað þess að fara í ferð til að selja disk gáfu þeir út tónlist til að selja tónleikamiða. Á einni nóttu hverfur þetta, bara mjög hratt, og algjör óvissa um framhaldið mjög lengi,” segir Ísleifur Þórhallsson, framkvæmdarstjóri Senu. Hann var gestur í Síðdegisútvarpinu á Rás 2 ásamt Maríu Rut Reynisdóttur, verkefnisstjóra Tónlistarborgarinnar Reykjavíkur. 

Ísleifur segir að fyrst hafi allir haldið að þetta yrðu 3-4 mánuðir sem yrðu erfiðir en að því loknu myndi allt hrökkva í gang og þeir viðburðir sem var frestað myndu bara færast aftur um nokkra mánuði. Hann segir að nú séu allir að átta sig á að þetta verði lengri og dýpri kreppa í tónleikahaldi sem ekki sér fyrir endann á. Þetta sé stór iðnaður og fjölmargir starfi á bak við tjöldin. „Þetta er þvílíkur bransi þegar allt er talið. Það eru tæknifyrirtæki, það þarf að selja mat, það er mjög mikið í kringum þetta. Gott dæmi um það er Airwaves sem við erum með, held að hátíðin sjálf velti 100-150 milljónum árlega en býr til milljarð. Þyrlar upp viðskiptum, flug, hótel, ferðir, mörg þúsund manns fljúga til landsins. Það er ágætisdæmi um hvað þessi bransi býr til mikil hliðarviðskipti út um allt. Bara einir tónleikar eða hátíð býr til gríðarleg viðskipti og þetta liggur allt í dvala,” segir Ísleifur.

María Rut bendir á að Ísland hafi alltaf staðið með tónlistarfólkinu sínu en iðnaðurinn í kringum tónlist hafi staðið höllum fæti. Þetta hafi þó breyst á síðustu árum. Nú sé verið að styðja þennan iðnað en tilfinningin í upphafi samkomubanns hafi verið eins og að horfa á eftir stórum hluta af allri vinnunni í einu vetfangi. 

Síðustu misseri hefur tónlistarfólk reynt að fara nýjar leiðir til að ná til aðdáenda sinna, til dæmis með bílatónleikum og streymi. Ísleifur segist þó ekki eiga von á að þessar nýjunar hafi mikil varanleg áhrif á iðnaðinn. „Ég held að þetta komi ekki í staðinn fyrir tónleika. Hvorki sem upplifun fyrir gestina né fjárhagslega fyrir tónlistarmanninn. Þetta hafa verið einhverjar tilraunir,” segir hann. Eitthvað muni kannski eyma eftir af netstreymi en flestir séu samt sem áður að bíða eftir að geta haldið alvöru tónleika.

Nú styttist í að hægt verði að halda tónleika hér á landi og Ísleifur segir það geta bjargað haustinu. Það verður þó líklega ekki hægt að halda alþjóðlegar hátíðir né tónleika með erlendum listamönnum næstu mánuði. „Ferðalög milli landa eru sennilega það síðasta sem kemst í lag. Þannig að maður sér ekki alveg fyrir sér mikið af tónleikum með erlendum listamönnum á Íslandi, eða bara að listamenn komist í túra á milli landa neitt í bráð. Svo er það spurning um viljann hjá fólki að mæta og vera í þvögu eða troðningi. Það á eftir að koma í ljós hvað fólk er til í,” segir Ísleifur.

Umræður um að seinni bylgja farsóttarinnar sé líkleg hefur einnig áhrif og því getur reynst erfitt að skipuleggja viðburði langt fram í tímann. María Rut bendir til dæmis á að enginn vilji vera sá fyrsti til að halda stóra viðburði þar sem smit koma upp. Óvissan sé því enn mikil þrátt fyrir að bjartari tímar séu fram undan. Nú þegar hefur flestum viðburðum sumarsins verið aflýst þrátt fyrir að margir þeirra myndu standast kröfur um fjölda gesta. Ísleifur segir að tónleikahaldarar séu fyrst og fremst að horfa til haustsins. „Ég held að sumarið sé eiginlega að mestu leyti farið. Við náum því ekki til baka. Þetta er spurning hvort þetta komist af stað í haust og á hvaða hátt. Hvað gerist í haust? Við erum svona að vonast til þess að frá 1. september og út árið sé hægt að halda viðburði og tónleika og þetta komist af stað. En það vofir alltaf yfir þessi óvissa, að þetta gæti blossað upp aftur og það koma aftur hömlur. Líka spurning hvað fólk er til í.” 

Ísleifur og María Rut benda á mikilvægi þess að það þurfi einhvers konar heildarsamtök um tónlistariðnaðinn hér á landi. „Við erum búin að ræða þetta mikið, ekki einu sinni bara tónleikabransinn hérna heima. Við eigum alveg samtök í tónlistinni heima, en við eigum engin svona heildarsamtök. Maður sér það bara erlendis að þessi samtök skipta svo miklu máli,” segir María Rut og bendir á að stjórnvöld tali yfirleitt frekar við samtök heldur en fyrirtæki og einstaklinga. 

Nánar var rætt við Ísleif og Maríu Rut í Síðdegisútvarpinu á Rás 2. 

 

 

 

 

 

 

Tengdar fréttir

Menningarefni

Búið að taka úr lás í Hörpu

Menningarefni

Hörð tveggja metra regla hálfgerður dauðadómur

Tónlist

Tónleikahald stærsta tekjulind tónlistarmanna