Hættulegt ef allir eru sammála

26.05.2020 - 20:28
Mynd: Guðmundur Pálsson / RÚV
Mikið hefur mætt á Víði Reynissyni að undanförnu en reglulegum upplýsingafundum Almannavarna hefur nú verið hætt. Víðir segir gagnrýni á stjórnvöld vegna viðbragða vera nauðsynlega og sé til þess að betur sé vandað til verka þegar erfiðar ákvarðanir eru teknar.

Eftir því sem leið á samkomubannið kom upp meiri gagnrýni. Sumum fannst að draga ætti hraðar úr takmörkunum og Víðir segist hafa fengið fjölmörg skilaboð frá fólki sem var ósátt vegna samkomubanns og takmarkana. Hann tók þó öllum slíkum ábendingum fagnandi enda nauðsynlegt að veita aðhald þegar að takmörk séu sett á frelsi íbúa. „Ég sagði það mjög snemma að ég er mjög glaður með svoleiðis skilaboð. Í svona krísum, eitt mesta hættumerki sem þú sérð í svona krísum er þegar allir fara að vera sammála. Þá ferðu að gera mistök og þetta fer að leiða þig eitthvert þar sem þú vilt ekki enda. Þegar þú ert með öfluga gagnrýni vandar þú þig betur og íhugar hlutina betur,” segir Víðir.

Hann telur einnig að allar ákvarðanir séu vandaðri þegar gagnrýni er til staðar enda hafa þær gríðarleg áhrif á líf fjölda fólks. „Þetta eru auðvitað enn þá miklar takmarkanir þó við séum búin að létta á mjög miklu. Manni líður miklu betur með ákvörðun í svoleiðis þegar maður fær gagnrýni og fær hvassar spurningar. Sumir geta náttúrlega orðað þær á kurteisari hátt en þeir gera, en við erum öll mannleg og brennum fyrir mörgu. Maður skilur vel fólk, sérstaklega eigendur þessara staða sem eru búnir að búa við þessar takmarkanir í allan þennan tíma. Hugsið ykkur að vera kráareigandi og það er búið að vera lokað hjá ykkur síðan í mars. Þetta er ekkert grín, að kippa lífsviðurværinu af fólki í svona langan tíma. Það að fá gagnrýni hjálpar okkur að taka betri ákvörðun og þá er maður öruggari með hana og líka auðveldara að standa með henni þegar frá líður,” segir Víðir. 

Víðir telur það hafa skipt sköpum að teymið var vel undirbúið fyrir einhvers konar heimsfaraldur og gátu því virkjað þá viðbragðsáætlun sem til var. Víðir segir að Almannavarnir hafi verið tilbúnar undir mun svartari sviðsmynd en við sáum hér á landi. „Við vorum þá meðal annars búin að skoða hvar og hvernig við myndum opna neyðarsjúkrahús ef að Landspítalinn og sjúkrahúsið á Akureyri myndu yfirfyllast. Hvar við myndum geta komið fyrir fólki sem ekki var hægt að koma inn á sjúkrahúsin,” segir Víðir. Þá séu þau  núna betur undirbúin ef önnur bylgja kemur upp enda hafa þau nú séð að smitin eru oft staðbundnari en áður var talið. Víðir segir of snemmt að fagna sigri og ekki megi gleyma því að þjóðin sé nú þegar búin að færa gríðarlegar fórnir. „Það eru tíu einstaklingar sem létust, það eru fjölskyldur, vinir og ættingjar í kringum það fólk. Það er fjöldi fólks á sjúkrahúsi í endurhæfingu eftir þessa baráttu. Fullt af fólki atvinnulaust, í hlutastörfum og alls konar,” segir Víðir. Það sé einmitt ein ástæða þess að nú megi ekki slaka of mikið á og brýnir Víðir fyrir öllum að halda athyglinni á verkefninu sem sé hvergi nærri lokið. 

Nú hafa skemmtistaðir og krár opnað að nýju og Víðir viðurkennir að hann hafi smá áhyggjur af stöðunni. „Við höfum séð fréttir erlendis þar sem nýjar bylgjur eru raktar til skemmtanalífsins, bæði í Þýskalandi, Kóreu og fleiri stöðum, að þá er verið að rekja hópsmit jafnvel inn á ákveðna skemmtistaði. Ég get ekki ímyndað mér að neinn kráreigandi eða skemmtistaðareigandi vilji að næsta bylgja verði skírð í höfuðið á hans stað. Ég hef bara fulla trú á að við munum öll vanda okkur,” segir Víður að lokum.

Nánar var rætt við Víði Reynisson í Síðdegisútvarpinu á Rás 2.

 

 

 

 

gudmundurp's picture
Guðmundur Pálsson
dagskrárgerðarmaður
andriv's picture
Andri Freyr Viðarsson
orrifr's picture
Orri Freyr Rúnarsson
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi