Fimm ár þar til ríkissjóður nær aftur endum saman

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Fjármálaráðherra segist reikna með því að ríkissjóður nái ekki endum saman að nýju fyrr en að allt að fimm árum liðnum. Í skoðun er að leggja fram endurskoðaða fjármálastefnu á þingstubbi í ágústlok eða september og þing verði starfandi í sumar þótt þingfundir verði ekki í júlí og ágúst.

Til skoðunar er að þinghald haldi áfram fram á haust með hléi á þingfundum í júlí og ágúst og svokallaður stubbur verði í ágústlok eða í september. Þar yrði fjallað um endurskoðaða fjármálastefnu. Þetta var rætt á fundi formanna flokkanna á Alþingi í morgun.

Fréttastofa hefur rætt við formenn flokkanna í dag sem sýna því skilning sem fjármálaráðherra segir - að hann geti ekki verið tilbúinn með fjárlög fyrr en í haust - og þá verði það að vera þannig. 

Hins vegar hefur ekki verið ákveðið endanlega með hve lengi þingfundir haldi áfram inn í sumarið. Samkvæmt gildandi starfsáætlun á síðasti þingfundur að fara fram 24. júní. Ekki er þó útséð með að halda þingfundum áfram viku lengur, það fer eftir því hvaða mál komi frá ríkisstjórninni og einnig hvaða mál stjórnarandstaðan getur samið um að fá að leggja fram. 

Þingið starfi fram á haust

Stjórnarandstaðan er á því að nauðsynlegt geti verið, og forseti Alþingis hefur reyndar nefnt það líka, að Alþingi verði starfandi fram á haust þótt hlé verði gert á þingfundum, til þess að hægt sé að halda þingfundi ef nauðsyn ber vegna mála tengdum kórónuveirufaraldrinum.

En ríkisstjórnin samþykkti í morgun frumvarp fjármálaráðherra um að leggja fram samhliða á þingsetningafundi næsta haust endurskoðaða fjármálastefnu fyrir árin 2018-2022, fjármálaáætlun og fjárlagafrumvarp næsta árs. Í skoðun er þó að fjármálastefnan verði lögð fram á þingstubbi í lok ágúst eða byrjun september, eftir ábendingar frá fjármálaráði.

Fjármálaáætlun frestað í mars vegna COVID

Nýkjörin ríkisstjórn gerir fjármálastefnu sem gildir jafn lengi og kjörtímabilið en gerir síðan árlega nýja fjármálaáætlun sem gildir til fimm ára. Fjármálaáætlun á samkvæmt lögum að leggja fram fyrir 1. apríl ár hvert. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra tilkynnti í mars um frestun á framlagningu áætlunarinnar í ljósi efnahagsóvissu í kjölfar kórónuveirufaraldursins.

Ráðherra hafði kynnt áform um að leggja fram endurskoðaða stefnu fyrir árin 2018-22 og nýja áætlun samhliða fjárlagafrumvarpi næsta árs á fyrsta þingfundi sem stefnt er á að verði 1. október, eða rúmum tveimur vikum síðar en lög gera ráð fyrir. Í bréfi frá fjármálaráði, sem hefur það hlutverk að leggja mat á stefnumörkun stjórnvalda í opinberum fjármálum, er mælt gegn því að leggja allt þrennt fram samhliða. Umfjöllun um fjármálastefnu verði að vera lokið þegar fjármálaáætlun er lögð fram.

„Já, það er tillagan frá mér að þetta komi allt fram í einu,“ segir Bjarni. „Það hafa komið fram sjónarmið að stefnan ætti að koma fyrr, ef að við værum til dæmis að þinga að hausti, seint í ágúst, byrjun september, þá gæti það komið til álita en við eigum eftir að botna þá umræðu,“ segir hann.

Trúverðug fjármálaáætlun aðalatriðið

Bjarni segir aðalatriðið að koma fram með trúverðuga áætlun byggða á traustum upplýsingum um stöðu efnahagslífsins og horfurnar, svo sem hvað varðar umsvif fyrirtækja, atvinnuleysi og fleira. Til þess þurfi sumarið að líða. Verulegu máli skipti að sýna fram á hvernig ná megi endum saman. Í bréfi fjármálaráðs er þessi frestun endurskoðunar fjármálastefnu gagnrýnd og segir í því að hún sé áhyggjuefni því ekki sé víst að efnahagsleg óvissa verði minni í haust en núna.

Spurður hvenær komi að því að ríkissjóður nái endum sama segir Bjarni: „Ég er að hugsa það í svona fimm ára áætlun um það bil, það er mjög erfitt að segja það nákvæmlega en þetta tekur ekki minna en þrjú ár og líklega fimm ár og vonandi ekki lengri tíma en það. “ 

 

sigridurda's picture
Sigríður Dögg Auðunsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi