Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Bubbi vildi ekki hafa Stál og hníf á fyrstu plötunni

Mynd: RÚV / RÚV

Bubbi vildi ekki hafa Stál og hníf á fyrstu plötunni

26.05.2020 - 10:57

Höfundar

Bubbi Morthens segir að hann hafi ekki viljað setja lagið Stál og hnífur á fyrstu plötu sína þar sem lagið hafi ekki verið tilbúið. „En lagið er eins og það er og ég er rosa ánægður með Stál og hníf, hvernig það hefur plummað sig og gefið mér fokkfingurinn.“

Stál og hnífur er líklega þekktasta lag Bubba. Hann segist hafa verið í hálfgerðum mótþróa að spila lagið á tónleikum síðustu 40 árin og það hafi í raun ekki átt að fá pláss á Ísbjarnarblús, fyrstu sólóplötu hans.

„Lagið var aldrei klárað af minni hálfu,“ segir Bubbi, en Sigurður Árnason, upptökustjóri, hafi hins vegar sannfært hann um að lagið ætti heima á plötunni. Bubbi segir að þeir hafi setið inni í herbergi að reykja þegar Sigurður bað hann um að taka upp „kassagítarlagið“ og átti þar við Stál og hnífur.

Bubbi tók lagið upp og Sigurður sagði strax að það myndi slá í gegn og vildi setja það á plötuna. Bubbi neitaði í fyrstu og vildi alls ekki hafa það með. Hann gaf svo eftir á endanum sem greiða við hann. „Fyrir það fyrsta spilaði hann á bassa meira og minna alla plötuna. Hann gaf mér alla vega 100 klukkutíma frítt í upptökum. Svo náttúrulega leit ég upp til hans af því að hann var bassaleikari í Náttúru sem mér fannst alveg geðveik hljómsveit. Ég bara skakkur og í fíling,“ segir Bubbi. 

Finnst hann ekki enn hafa klárað lagið

Lagið var einnig spilað á forláta Martin-kassagítar sem Ólafur Þórðarson, liðsmaður Ríó Tríós átti og var eini Martin-gítarinn á Íslandi. „Ég spilaði Stál og hnífur á þennan Martin-gítar en það var aldrei fullklárað, þetta var bara teikning af lagi,” segir Bubbi. Aðspurður segist Bubbi hafa viljað gera ýmsar breytingar á laginu. „Ég ætlaði að gera textann miklu betur og tengja hann miklu betur, fyrsta erindið og seinna erindið, ætlaði að hafa lagið lengra og ætlaði að hafa millikafla,” segir Bubbi og bætir við að hann hafi hugsað um breytingar á laginu í hvert einasta skipti sem hann hefur spilað það síðustu 40 árin. Hann segist þó ekki vera búinn að klára lagið og hefur ekki gert neinar breytingar frá því það kom út.

„Svona er þetta. Lagið er löngu búið að sanna sig. Hausinn á mér er hins vegar enn þá í þessari lúppu, þetta er þráhyggja. Ég nenni ekki að spila það en spila það alltaf. Ég hef reynt að fara með það í nokkrar útgáfur, ég hef tekið það í suður-amerískum fíling og eyðimerkurfíling. En lagið er eins og það er og ég er rosa ánægður með Stál og hníf, hvernig það hefur plummað sig og gefið mér fokkfingurinn.“

Nýtt lag með Hjálmum

Bubbi sagði frá erfiðu sambandi sínu við lagið Stál og hníf í Popplandi á Rás 2. Tilefni viðtalsins er nýtt lag sem hann og Hjálmar voru að gefa út. Lagið heitir Þöggun og varð til vegna bílatónleika sem til stóð að halda í samkomubanni, þeim var hins vegar slaufað eftir nýlegar tilslakanir. Bubbi hefur lengi verið mikill aðdáandi Hjálma og rifjaði upp þegar að hann heyrði fyrst í hljómsveitinni. Hann hafi fagnað því að loksins væri komin alvöru íslensk reggíhljómsveit. Kiddi rifjaði einmitt upp hans fyrstu kynni af Bubba. „Ég man þegar ég hitti Bubba fyrst, þá var ég að vinna hérna uppi í Sjónvarpi og Hjálma-plata tvö nýkomin út.“ Lagið Ég vil fá mér kærustu hafði slegið í gegn og náð eyrum margra. „Þá hafði [Bubbi] heyrt Ég vil fá mér kærustu, kemur hann til mín og segir: ég hefði átt að fá þessa hugmynd,” segir Kiddi. Bubbi virðist enn á þeirri skoðun og segir að lagið sé annað af tveimur bestu ábreiðum í sögu landsins.

Bubbi er þó alls ekki hrifinn af öllu sem gefið er út á Íslandi þessa dagana. „Ruslið sem er að koma út á Íslandi þessa dagana. Þetta er svo mikið, þetta er svo mikið flóð af rusli,” segir Bubbi en inn á milli leynast þó algjörar perlur að hans mati.

Tengdar fréttir

Menningarefni

„Listin getur aldrei orðið lýðheilsustofnun“

Menningarefni

Bubbi um rettuna: „Auðvitað er þetta ritskoðun“

Menningarefni

Listamenn í lausu lofti vegna 2 metra reglunnar

Mynd með færslu
Tónlist

Hjálmar í beinni frá Hljómahöllinni