Tveggja daga aðalmeðferð í máli björgunarsveitarmanns

25.05.2020 - 17:33
Mynd með færslu
 Mynd: Jón Hákon Halldórsson - RÚV
Tveggja daga aðalmeðferð í máli fyrrverandi gjaldkera björgunarfélags Árborgar sem ákærður er fyrir fjárdrátt, umboðssvik og peningaþvætti hófst í Héraðsdómi Suðurlands í dag. Umfang brotanna nemur um sautján milljónum króna.

Grunur um brot gjaldkerans vaknaði í mars 2017 þegar hann viðurkenndi að hafa notað viðskiptakort björgunarfélagsins til að kaupa eldsneyti. Honum var vikið frá störfum á meðan rannsókn lögreglu stóð og ákærður í ágúst í fyrra. Málið er umfangsmikið og ákæra héraðssaksóknara var á sextán síðum.

Í ákærunni er maðurinn meðal annars sagður hafa dregið sér rúmar 14 milljónir á árunum 2010 til 2017 af reikningi björgunarfélagsins. Það er hann sagður hafa gert með reiðufjárúttektum, greiðslu reikninga og með millifærslum út af bankareikningi félagsins inn á eigin reikning og reikning eiginkonu sinnar, samtals 177 tilvik. 

Maðurinn er einnig ákærður fyrir umboðssvik. Í ákærunni er hann sagður hafa misnotað aðstöðu sína sem gjaldkeri og notað kreditkort félagsins 57 sinnum á árunum 2014 til 2016 til að greiða fyrir vörur og þjónustu til eigin nota.

Maðurinn er einnig sagður hafa notað viðskiptareikninga björgunarfélagsins hjá fyrirtækjum eins og Byko og Húsasmiðjunni á árunum 2013 til 2016, alls 18 sinnum.  Þá er hann ákærður fyrir að nota sex eldsneytiskort félagsins 186 sinnum á sjö ára tímabili, frá árinu 2010 til ársins 2017.

solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi