Ótrúlegt met í Færeyjum

epa06016263 The Torsvollur football stadium in Torshavn, Faroe Islands, 08 June 2017. Switzerland is scheduled to play an 2018 Fifa World Cup Russia group B qualification soccer match against the Faroe Islands on 09 June 2017.  EPA/GEORGIOS KEFALAS
 Mynd: EPA

Ótrúlegt met í Færeyjum

25.05.2020 - 10:24
Adrian Justinussen, leikmaður HB í Færeyjum, sló í gærkvöld ótrúlegt heimsmet þegar hann skoraði þrjú mörk beint úr aukaspyrnum á átta mínútna kafla. Justinussen bætti heimsmetið um 15 mínútur með aukaspyrnuþrennunni.

HB mætti AB Argir á útivelli í gær og fyrrverandi lærisveinar Heimis Guðjónssonar hjá HB unnu leikinn 5-0. 

Adrian Justinussen átti stórkostlegan leik hjá HB. Fyrsta mark hans kom úr aukaspyrnu á 8. mínútu, annað markið skoraði hann á þeirri tólftu og þriðja aukaspyrnumarkið kom á 17. mínútu, aukaspyrnuþrenna á átta mínútum. Fjórða mark hans var að vísu ekki úr aukaspyrnu en það skoraði hann á 21. mínútunni og Justinussen skoraði því fjögur mörk á þrettán mínútum. 

Serbinn Sinisa Mihajlovic skoraði þrjú mörk úr aukaspyrnu á 23 mínútum með Lazio í ítölsku úrvalsdeildinni árið 1998 og hafði engum tekist að slá það met í 22 ár. Justinussen á nú þetta skemmtilega heimsmet en hann bætti met Mihaljovic um fimmtán mínútur með mörkunum þremur í gær. 

HB hefur unnið alla þrjá leiki sína í deildinni hingað til, líkt og B36.