Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Jarðskjálfti truflar viðtal við Ardern

25.05.2020 - 03:25
Mynd: AP / AP
Nokkuð snarpur jarðskjálft varð á Norðureyju Nýja-Sjálands þegar kominn var mánudagsmorgunn þar í landi. Skjálftinn mældist 5,6 að stærð og átti upptök sín um 90 kílómetrum norður af Wellington, á um 52 kílómetra dýpi, að sögn AFP fréttastofunnar. Engin slys urðu á fólki að sögn yfirvalda, og ekki hafa borist fregnir af teljandi skemmdum vegna skjálftans. Myndband náðist af viðbrögðum forsætisráðherrans Jacindu Ardern, sem var í sjónvarpsviðtali í morgunþætti þegar skjálftinn reið yfir.

Klukkan var orðin átta að morgni, eða átta að sunnudagskvöldi hér á landi. Ardern tók sér örstutt hlé frá viðtalinu og sagði viðmælanda sínum að það væri smá jarðskjálfti hjá henni. Hún leit svo í kringum sig til þess að athuga hvort allt væri í lagi inni í herberginu sem hún var. Þegar skjálftinn var yfirstaðinn sagðist hún vera í góðu lagi. Hún væri ekki undir neinum hangandi ljósum og sagði að henni virtist sem hún væri í ansi öruggri byggingu.

Nýja Sjáland liggur á eldhringnum svonefnda á Kyrrahafi. Þar eru flekaskil og verða yfir 15 þúsund jarðskjálftar á ári á svæðinu. Jarðfræðistofnun Nýja Sjálands segir að um 40 eftirskjálftar hafi mælst að þeim stóra loknum.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV