Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Grunuðum barnaníðingi sleppt úr gæsluvarðhaldi

25.05.2020 - 10:21
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Landsréttur felldi fyrir helgi úr gildi gæsluvarðhaldsúrskurð Héraðsdóms Reykjaness yfir manni sem er grunaður um að hafa brotið gegn tveimur börnum inni á salerni á vinnustað sínum. Héraðsdómur hafði úrskurðað manninn í fimm daga varðhald.

Í úrskurði héraðsdóms frá því á fimmtudag kemur fram að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi fengið tilkynningu að kvöldi þriðjudags frá Barnaspítala Hringsins um hugsanlegt kynferðisbrot gegn barni. Síðan hafi komið í ljós að börnin væru tvö. Í framburði annars barnsins hafi komið fram að maðurinn hafi farið með þau inn á salerni, sýnt þeim á sér kynfærin og látið þau snerta og kyssa þau. Úr úrskurðinum sem birtist á vef Landsréttar hefur aldur barnanna verið afmáður, sem og hvar brotin eru talin hafa verið framin. Maðurinn neitaði sök.

Lögregla taldi brýnt að fá manninn í gæsluvarðhald vegna þess að rannsóknin væri stutt á veg komin, enn ætti eftir að taka nákvæmari skýrslur af börnunum í Barnahúsi og eins af mögulegum vitnum, meðal annars starfsmönnum þar sem maðurinn vann og öðrum börnum sem þar voru. Þá hafi lögregla lagt hald á fartölvu og farsíma mannsins, sem ætti eftir að rannsaka, og fara yfir myndbandsupptökur úr öryggismyndavélum. Lögregla taldi hættu á að gengi maðurinn laus mundi hann eiga kost á að torvelda rannsóknina, til dæmis með því að ræða við vitni og hafa áhrif á framburð þeirra.

Lögregla fór fram á gæsluvarðhald til 28. maí en Héraðsdómur Reykjaness féllst á tveimur dögum skemmra varðhald, til 26. maí. Maðurinn skaut þeirri niðurstöðu til Landsréttar, sem felldi úrskurðinn úr gildi á föstudaginn var og leysti manninn úr haldi. Í niðurstöðu Landsréttar segir að lögregla hafi ekki sýnt fram á að rannsóknarhagsmunir krefjist þess að maðurinn sé í haldi.

 

stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV