Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Getum fagnað þessum áfanga, segir Þórólfur

Mynd: Þórdís Arnljótsdóttir / RÚV
Í dag voru tímamót í kórónuveirufarsóttinni hérlendis. Verulegar tilslakanir á samkomutakmörkunum tóku gildi og lífið færist smám saman í eðlilegra horf. Sóttvarnalæknir sagði á síðasta upplýsingafundi almannavarna í dag að Íslendingar gætu vel fagnað árangrinum í baráttunni við kórónuveiruna. Aðeins sex hafa greinst í maí. Þríeykið steig á stokk í tilefni dagsins.

Heilbrigðisráðherra með hálfgert uppistand

Það var nokkuð léttara yfir þessum síðasta reglulega upplýsingafundi í dag og ráðherrar heilbrigðis- og dómsmála gestir ásamt fastagestunum Víði, Þórólfi og Ölmu. 

„28. febrúar kom fyrsta smitið og allt breyttist. Fréttir og vangaveltur, rakningateymið, spálíkanið, bakvarðasveitin, upplýsingafundirnir. Þórólfur, hefurðu ekki áhyggjur,“ sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra í upphafi ávarps síns á fundinum og rifjaði upp það sem kom upp í hugann af tilsvörum síðustu vikna af upplýsingafundunum. 

Og hún hélt áfram og nefndi orðalag og orð sem fæstir höfðu heyrt nefnd fyrir 28. febrúar eins og smitrakningaapp, sýnatökupinna, smitleiðir og austurríska bæinn Iscghl. Að lokum hrósaði hún heilbrigðisstarfsfólki, almenningi og þríeykinu: 

„Þvílík gæfa að hafa þetta fólk. Umhyggja fagmennska og öryggi, allt sem við þurftum,“ sagði Svandís og færði þeim Ölmu, Þórólfi og Víði sitthvorn blómvöndinn

Þrjár vikur í meiri tilslakanir

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði aðspurður fargi af sér létt: 

„Við erum komin á góðan stað og ég held að við getum öll fagnað þessum áfanga sem við höfum náð í þessari baráttu hingað til.“

En þetta er ekki búið, segir hann, nú þurfi að sjá hvernig gangi með tilslakanir og aukinn fjölda ferðamanna. Ef allt gengur vel þá verður hægt að slaka enn meira eftir þrjár vikur. 

„Við höfum verið að ræða það að þriðja skrefið í þessu verði 500 manns.“

Það hafa sex greinst hér í maí, hvað má áætla að margir séu í raun enn smitaðir?

„Það er ómögulegt að segja og ég held að það séu ekki margir samt.“

Ef að við almenningur þurfum að muna eitt til þess að gæta að okkur, hvað er það?

„Það er að gæta vel að handþvotti og þessum einstaklingsbundnu sýkingavörnum.

Þrír af hverjum fjórum hefur séð upplýsingafundina

Áhorf á upplýsingafundina hefur slegið öll met á þessum tíma dags miðað við aðra fundi og dagskrárliði. Rúmlega 77% þjóðarinnar hafa fylgst með einum eða fleiri fundum miðað við áhorfstölur RÚV. Mest var horft í lok mars og byrjun apríl. Fréttastofan tók vegfarendur tali í Skeifunni: 

Fylgdistu með upplýsingafundum Almannavarna?

„Já, bara alltaf, yfirleitt alltaf.“

Fannstu öryggi við það?

„Já, já,“ segir Guðrún Kristjánsdóttir. 

Horfðirðu á upplýsingafundina?

„Já, marga. Ég fylgdist líka með covid.is síðunni,“ segir Lárus Steinþór Guðmundsson.

„Ég horfði á fyrsta fundinn en svo var þetta sama þvælan aftur og aftur,“ segir Agnar Darri Sverrisson. Og segist að sjálfsögðu hafa farið eftir fyrirmælum. 

Af hverju horfðirðu á þá?

„Mjög intressant sem þau sögðu og reyndi að hlýða því alla vega,“ segir Áslaug Halldórsdóttir Kjartansson. 

Allir í Skógarhlíð sungu Góða ferð

Húsakynni Almannavarna, Landhelgisgæslunnar, slökkviliðsins, Landsbjargar, Neyðarlínunnar og fleiri við Skógarhlíð voru opnuð formlega aftur í dag eftir að hafa verið lokuð flestum undanfarið. Og starfsfólk hússins fagnaði áfanganum við forsöng þríeykisins með gamla laginu Góða ferð, sem gengið hefur í endurnýjun lífdaga í kófinu.