Bjóða upp á tónlistarhátíð í tölvuheimi Minecraft

Mynd með færslu
 Mynd: Minecraft

Bjóða upp á tónlistarhátíð í tölvuheimi Minecraft

25.05.2020 - 11:22
Framleiðslufyrirtækið Rave Family tilkynnti í dag fyrstu Minecraft tónlistarhátíðina, Electric Blockaloo, sem fer fram dagana 25. - 28. júní, með yfir 300 listamönnum.

Tónlistarhátíðin Electric Blockaloo  er sögð skilgreina það hvernig hátíðir munu líta út árið 2020 í Bandaríkjunum vegna kórónuveirunnar, sem hefur hrist upp í mörgum viðburðum á borð við tónlistarhátíðir. Hægt verður að nálgast hátíðina í gegnum farsímann, PC, Mac, Playstation, Xbox, Nintendo Switch og VR, en enginn þarf að mæta. 

Fyrir þá sem ekki þekkja Minecraft mun Rave Family halda æfingabúðir í aðdraganda hátíðarinnar. Þar munu leikmenn og þátttakendur læra að sigla, synda, versla og umgangast Minecraft alheiminn til að öðlast nægilega færni til að flakka um tónleikasvæðið.

Samkvæmt Rave Family mun Electric Blockaloo hafa 60/40 tekjuskiptingu við listamennina og gera þeim þannig kleift að afla tekna af eigin miðasölu. Listamönnum verður veittur hlekkur sem þeir geta deilt með aðdáendum sínum sem þeir geta síðan keypt miða í gegnum. Meðal listamanna sem hafa verið tilkynntir eru Diplo, A-Track, Claude VonStroke, ZHU og Claptone.

Þetta er þó ekki í fyrsta sinn sem tónlistarhátíð er haldin innan tölvuleikjaheims. Fyrirtækið Block By Blockwest, hélt sambærilega hátíð innan tölvuleikjaheims í síðustu viku eftir að fyrri tilraun mistókst vegna gríðarlegrar aðsóknar.