Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Sendu Eid-kveðjur frá Malasíu með Daða-dansi

Mynd: EPA-EFE / EPA

Sendu Eid-kveðjur frá Malasíu með Daða-dansi

24.05.2020 - 20:00

Höfundar

Nærri tveir milljarðar fagna einni stærstu hátíð múslima sem gekk í garð í dag. Hátíðahöldin voru þó með óhefbundnu sniði hjá mörgum líkt og við var að búast í skugga heimsfaraldurs. Fjölskylda í Malasíu sendi Eid-kveðjur á Twitter með dansi undir ljúfum tónum Daða og gagnamagnsins.

Eid al-Fitr markar endalok hins heilaga föstumánaðar ramadan. Vanalega er afar fjölmenn bænastund í upphafi hátíðar en sökum samkomubanns og takmarkana víða um heim var tómlegra um að litast í moskum í ár. Ekki fóru þó allir að fyrirmælum yfirvalda og báðust sumir fyrir fyrir utan lokaðar moskur. Það fór ekki mikið fyrir tveggja metra reglunni í Karachi í Pakistan þar sem yfir þúsund komu saman til bæna.

„Ekkert fjör á Eid í ár“

Segja má að múslimar eigi tvær hátíðir sem má líkja við jólin hjá kristnu fólki. Eid al-Fitr er önnur þeirra og hefð er fyrir heimsóknum og fjölmennum matarboðum með stórfjölskyldunni. „Það er ekkert fjör á Eid í ár. Við gátum ekki heimsótt ættingjana. Við sitjum heima og gerum allt hér af því að allt er lokað,“ segir Mubarrah Yasin, stúlka sem býr í Kasmír á Indlandi. 

Þótt Daði og Gagnamagnið séu líklega ekki hefðbundin hátíðartónlist vildi fjölskylda í Malasíu senda Eid-kveðjur með laginu Think About Things sem hefði átt að vera framlag Íslands í Eurovision í ár. Kveðjuna má sjá hér og í myndskeiðinu með fréttinni.