Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Segir Kína og Bandaríkin á barmi kalds stríðs

24.05.2020 - 08:29
epa08440576 Chinese Foreign Minister Wang Yi is seen on screens as he speaks to the reporters during an online press conference in Beijing, China, 24 May 2020. China held the Chinese People's Political Consultative Conference (CPPCC) on 21 May and the National People's Congress (NPC) on 22 May, after the two major political meetings initially planned to be held in March 2020 were postponed amid the ongoing coronavirus and COVID-19 disease pandemic.  EPA-EFE/ROMAN PILIPEY
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Utanríkisráðherra Kína, Wang Yi, sagði í morgun að Kína og Bandaríkin væru á barmi kalds stríðs. Samskipti ríkjanna hafa versnað mjög að undanförnu. Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur ítrekað gagnrýnt viðbrögð Kínverja við kórónuveirunni sem veldur COVID-19, þegar hún kom fyrst upp í landinu í desember. Þá hafa bandarísk stjórnvöld gagnrýnt ný lög sem kínverska þingið samþykkti nýlega og er ætlað að hindra mótmæli í Hong Kong.

Öfl í Bandaríkjunum hafa tekið samskiptin í nokkurs konar gíslingu sem hafi valdið því að samskiptin séu í þessum farvegi, sagði ráðherrann við fréttamenn. 

Langvinnar deilur ríkjanna um viðskipti og mannréttindi hafa versnað eftir að faraldurinn braust út. Wang sagði ekki hvaða öfl það væru í Bandaríkjunum sem hann ætti við. Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur gagnrýnt kínversk stjórnvöld harðlega fyrir það sem hann telur slæleg viðbrögð þegar kórónuveiran kom fyrst upp í borginni Wuhan í desember. Trump hefur einnig sagt að hann hafi séð sannanir um að veiran hafi verið búin til á kínverskri rannsóknarstofu. Þá hafa bandarísk stjórnvöld, og fleiri, gagnrýnt lög sem voru samþykkt á kínverska þinginu á föstudag. Samkvæmt þeim verður andóf og niðurrifsstarfsemi í Hong Kong, í garð kínverskra stjórnvalda bönnuð. Lögin eiga að stemma stigu við fjölmennum mótmælum á borð við þau sem stóðu yfir í um sjö mánuði í fyrra.

Utanríkisráðherrann kínverski sakaði stjórnvöld í Washington um að hafa ítrekað borið út róg um Kína. „Til viðbótar við hörmungarnar sem hafa fylgt kórónuveirufaraldrinum, þá er líka pólitískur vírus í Bandaríkjunum,“ sagði Wang við blaðamenn í dag. Utanríkisráðherrann sagði að veiran lýsti sér þannig að hvert tækifæri væri nýtt til að breiða út ósannindi um Kína og að sumir stjórnmálamenn virði staðreyndir að vettugi og breiði út lygar.