Myndmál sem smitast og verður að heimsfaraldri

Mynd: RÚV / Menningin

Myndmál sem smitast og verður að heimsfaraldri

24.05.2020 - 11:20

Höfundar

Grafísk hönnun frá 19. öld fram á miðja þá 20. er undir í rannsókninni Íslenskur myndheimur sem Guðmundur Oddur Guðmundsson, Goddur, vinnur nú að. Hann hefur nú komið sér fyrir í Hönnunarsafni Íslands þar sem gestir og gangandi geta fylgst með rannsókninni á lokametrunum.

Goddur hefur árum saman rannsakað sögu myndmáls á Ísland og fékk fyrir tveimur árum styrk frá Rannís. Nú sér fyrir endann á rannsókninni fram að tímum módernismans. „Ég kalla þetta íslenska myndmálssögu. Þetta varðar það tímabil þar sem myndir og texti koma fram í prentuðu máli og hvernig myndmál verður til utan á umbúðum, mjólkurvörum, plötuumslögum, bókakápum, öllu prentuðu efni, frá þessari tengingu, sem á sér stað um miðja 19. öld fram yfir módernismann sem þessi umferð snýst um. það er að segja fram yfir fyrri heimsstyrjöld.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Menningin

Goddur hefur greint íslenskt myndmál á tímabilinu niður í fjóra flokka: nýklassík; bresku handverkshreyfinguna, sem á rætur að rekja til Bretlands; Art Nouveau sem sjöunda dags aðventistar komu með til Íslands, og Art Deco. „Maður getur bent á hvar hlutirnir byrjuðu, alveg eins og Wuhan-veiran og hugmyndir eru eins og veira eða vírus sem smitar fólk og tekur stökkbreytingum og getur valdið heimsfaraldri.

Rannsóknin nær að þeim tíma sem kynslóð íslenskra teiknara kom aftur heim úr námi á 4. áratugnum og stofnaði Félag íslenskra teiknara. „Þetta er tímabilið sem við erum að fjalla um. Við erum ganga frá og loka þessari bók áður en við gerum aðra bók um módernismann.“

Menningin leit við á opnu vinnustofunni og spjallaði við Godd. Horfa má á innslagið hér að ofan.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Menningin