Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Má treysta á gull og verðtryggingu

24.05.2020 - 19:28
Mynd: Pixabay / Pixabay
Hraðar stýrivaxtalækkanir valda því að þau sem eiga sparifé eiga orðið erfiðara með að finna leiðir til að ávaxta það. Gull og verðtrygging virðist vera það sem hægt er að treysta á í ástandi sem þessu.

Sem dæmi má nefna fékk sá sem lagði eina milljón inn á hefðbundna bankabók í upphafi árs í fyrra einungis sjö hundruð til 14 hundruð krónur í ávöxtun yfir árið. Þegar búið er að taka tillit til verðbólgu er þessi milljón, með ávöxtun, minna virði en þegar hún var fyrst lögð inn.

Myndi setja milljónina á verðtryggðan reikning

Það sem af er þessu ári hefur Seðlabankinn í fjórgang lækkað stýrivexti sína og eru þeir komnir niður í eitt prósent og hafa aldrei verið lægri. Sem vissulega eru jákvæðar fréttir fyrir meginþorra Íslendinga því samhliða lækkun stýrivaxta lækka vextir á húsnæðislánum og öðrum lánum og eykur ráðstöfunartekjur þeirra. En fyrir þá sem eiga sparifé fer góðum kostum fækkandi.

Jón G. Hauksson, sem gefur út tímaritið Fjármál og ávöxtun, ráðleggur því fólki að verðtryggja sparnaðinn sinn. „Ef ég væri spurður að því í dag hvar ég ætlaði að ávaxta til dæmis eina milljón ef ég ætti hana til þá myndi ég ráðlegga fólki það að horfa á verðtryggðu reikinga bankanna. Ef fólk hefur áhyggjur af verðbólgu þá er það auðvitað að tryggja sig gagnvart henni. En almennt held ég samt að ávöxtun verði ekkert sérstök á þessu ári.“

Hlutabréfin geta verið fallvölt

En það eru fleiri kostir í stöðunni en bankabækur. Jón segir sjóði verðbréfa fyrirtækjanna hafa gefið ágætis ávöxtun í fyrra en fasteignamarkaðurinn var með rólegra móti og stóð ávöxtun nánast í stað. En eitt stendur þó iðulega fyrir sínu. „Á öllum óvissutímum er reglan þessi, þumalputtareglan, að gull hækkar í verði,“ segir Jón.

Aðrar hrávörur og eins og olía og ál eru í sögulegu lágmarki og óvíst hvert stefnir. Einhverjir hafa bundið vonir við vín og listaverk þótt það sé meira hugsað sem langtímaávöxtun og svo eru það náttúrlega hlutabréf. En þar er ekki heldur á vísan að róa. „Hlutabréf hafa verið að hækka síðustu vikurnar en það er erfitt að átta sig á því yfir árið hvort hlutabréf hækki eða lækki.“