Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Einmanalegt og stórfurðulegt að vera landvörður núna

Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Það er stórfurðulegt og dálítið einmanalegt að vera landvörður á tímum kórónuveirunnar, segir landvörður Reykjanesfólkvangs. Síðasta sumar komu þúsund ferðamenn á dag á jarðhitasvæðið Seltún en núna koma fáir eða allt að hundrað á góðum degi.

Reykjanesfólkvangur hefur að geyma margar náttúruperlur eins og Krýsuvíkurberg að ógleymdu Kleifarvatni. Þessir staðir hafa löngum laðað að ferðamenn. Og ekki má gleyma Seltúni. En það er ekki alltaf sólskin í lífi landvarðar í Reykjanesfólkvangi. Í dag rigndi eins og hellt væri úr fötu.

„Nei, nei, það fylgir þessu öll flóran í veðrinu. Í dag erum við með kærkomna rigningu, bara klassíska suðvestan átt og rigningu og vætu fyrir svæðið og veitti nú ekki af,“ segir Óskar Sævarsson, landvörður Reykjanesfólkvangs.

Kórónuveiran hefur náttúrulega haft mikil áhrif á starfið?

„Já, við sjáum það í dag. Hér er að koma einn og einn bíll og Íslendingar náttúrulega og þeir eru kannski ekki gallaðir í þetta,“ segir Óskar.

Samkomubannið varð þó til þess að fólk fór að kanna landið og jafnvel komu um hundrað manns yfir daginn í Seltún.

„En náttúrulega á sama tíma í fyrra voru hér fleiri hundruð manns og það voru útlendingar. Ef við tölum um júní og fram í miðjan ágúst þá voru hér allt að þúsund manns á dag. Bílastæðin full á hverjum klukkutíma, þrjár og upp í fimm rútur, kannski samanlagt 20 rútur yfir daginn,“ segir Óskar.

En leiðist þér ekkert þegar það koma svona fáir?

„Þetta er búið að vera svolítið sérstakt. Hér hefur þessi daglega viðvera síðustu 5-6 árin falist í því að þrífa. Við erum salerni og það þarf að sinna þessu og talverður hluti af deginum farið í að þrífa,“ segir Óskar.

Núna gefst tími til að sinna öðrum verkefnum. Óskar vonar að ferðamönnum fjölgi í sumar.

En verður maður ekkert einmana og svona þegar fáir koma og lítið við að vera?

„Þetta eiginlega alveg bara stórfurðulegt. Jú, jú. Ég lít hérna yfir svæðið. Það er einn bíll hérna. Hann er að spá í að fara út. Ég efast um að hann fari út í þetta veður. Það þarf ekkert að bæta á klósettrúllu sko. Jú, þetta er óneitanlega furðulegt. Það verður að segjast eins og er,“ segir Óskar.