Dragdrottningin og olíuveldið

Mynd: EPA-EFE / EPA

Dragdrottningin og olíuveldið

24.05.2020 - 16:50

Höfundar

Hún er leikkona, söngkona, sjónvarpsþáttafrömuður og fyrirsæta. Hún er sköllóttur karlmaður og hárprúð drottning: dragmóðir heimsins sem berst ötullega fyrir réttindum hinsegin fólks og annarra undirokaðra hópa. En hún er líka olíubarón.

RuPaul er konan eða maðurinn – eftir því hvernig á það er litið – sem setti draglistina á kortið. Engin dragdrottning kemst með tærnar þar sem hann hefur háu hælana hvað varðar frægð og frama og raunar eru RuPaul og raunveruleikaþættirnir RuPaul’s Drag Race helsta lyftistöng dragdrottninga á heimsvísu. Við getum jafnvel tekið þessa staðhæfingu skrefinu lengra: Raunveruleikaþættirnir RuPaul’s Drag Race eru ein helsta lyftistöng réttinda hinsegin fólks á heimsvísu.

Það að fagna hinsegin menningu er pólitískt í eðli sínu. Að gera það með sjónvarpsþætti sem gengur út á kynusla í sinni litríkustu, háværustu og glamúrvæddustu mynd virðist allt að því áróðurskennt fyrir þeim sem ekki styðja réttindabaráttu hinsegin fólks. Og það er eiginlega alveg sanngjarnt að líta á þættina sem áróður; áróður fyrir jafnrétti, ást, frelsi og fölskum augnhárum og þeim sem vilja hatast við slíkt er einfaldlega ekki boðið í afmælið.

En pólitíkin nær dýpra. Í þáttunum eru þekktir repúblikanar, og þá sérstaklega Donald Trump, reglulega hafðir að háði og spotti. Haldnar eru innblásnar ræður um hverskonar misrétti, málefni innflytjenda, fátækt og umhverfismál. Málefnin sem RuPaul tekur upp á arma sína í þáttunum eru almennt álitin á vinstri væng bandarískra stjórnmála og leiða má að því líkur að þar haldi hans stærsti áhorfendahópur til hugmyndafræðilega séð. Hann á sér fylgjendur, áhangendur, fólk sem fylgir honum í einu og öllu því hann er dragmóðir alheimsins.

En á síðustu vikum hefur meikið runnið aðeins til, hárkollan skekkst og stórt gat myndast í glansímyndina. Og það gat er borhola.

Frakkur í Fersku lofti

RuPaul var viðmælandi í útvarpsþættinum Fresh Air á NPR í mars. Þar spurði þáttastjórnandinn Terry Gross út í landsvæði, 60 ekrur, sem drottningin á í Wyoming ásamt eiginmanni sínum. 

„Oh nei, nei nei, nei, nei, nei. 60 ÞÚSUND ekrur,” leiðrétti RuPaul. Það eru rúmlega 242 ferkílómetrar. Gross þótti mikið til koma. „Það er eins og þjóðgarður,” sagði hún áður en hún spurði hvað hjónin gerðu við allt þetta landsvæði. Eiga þeir hesta, búfénað, bóndabýli?

RuPaul útskýrði að þetta snerist nú aðallega um landrekstur, sem í þeirra  tilviki þýðir að „leigja steinefnaréttindin til olíufyrirtækja, selja vatn til olíufyrirtækja og leigja svo beitilandið til stórbónda.”

Gross spurði ekki frekar út í þetta fyrirkomulag en nokkrir hlustendur sátu eftir steinrunnir. Var RuPaul að játa á sig „fracking”?

Hættulegt heilsu og náttúru

Á Vísindavefnum segir:
Fracking er stytting á „hydraulic fracturing" sem er aðferð sem beitt hefur verið í orkuiðnaðinum um margra áratuga skeið til að örva vökvarennsli inn í borholur, stundum kallað vökvabrot á íslensku. Eftir að borun lýkur er vökva dælt niður í holuna undir háum þrýstingi þar til bergið brestur og sprungur opnast út frá holunni. Sandi og ýmsum efnum er þá blandað í vökvann til að halda sprungunum opnum svo vökvi eigi greiðari leið um þær. Vökvinn sem borað er eftir getur verið olía, jarðgas, heitt vatn eða gufa. Á seinni árum hefur þessari aðferð verið beitt í auknum mæli við vinnslu jarðgass úr fornum setlögum, einkum skífubergi (e. shale), og hefur sú aðgerð víða valdið vandamálum og deilum.

Deilurnar eru margþættar. Þær snúast um ýmsar aukaverkanir vinnslunnar svo sem mengun vatnsbóla, gríðarlegan leka á metangasi út í andrúmsloftið, sóun á vatni, jarðskjálfta sem og sjón- og hávaðamengun. Vökvabrot hefur nú þegar verið bannað með lögum í Frakklandi, Þýskalandi og Búlgaríu auk þess sem vinnsluaðferðinni hefur verið úthýst úr nokkrum ríkjum Bandaríkjanna. Meginástæðan er hugsanleg áhrif á almannaheilsu.

Et tu, Ru?

Á landareign RuPaul eru í það minnsta 35 virkir gas- og olíubrunnar. Það er í sjálfu sér ótrúlegt að hann hafi greint frá því af fúsum og frjálsum vilja en hann hefur reyndar gert það áður, í viðtali við Jimmy Kimmel árið 2018. Kannski hefur hann ekki áttað sig á því hversu umdeildar og óumhverfisvænar þessar aðferðir eru. Kannski er honum bara alveg sama. 

RuPaul hefur aldrei farið leynt með áhuga sinn á peningum. Drag er dýr listgrein og fjárskortur heldur oft aftur af keppendum í RuPaul’s Drag Race. Förðunarvörur eru dýrar, hárkollur eru dýrar, sérsaumuð föt og hælaskór í karlmannsstærðum kosta skildinginn. Og þó ljóst sé að keppendur byggja á misfjársterkum grunni er þeim efnaminni enginn afsláttur gefinn. Þú átt að vinna með það sem þú hefur og það skiptir engu máli þó aðrir hafi meira. 

 

RuPaul hefur ekki svarað ásökunum um hræsni og umhverfisspjöll en það er auðvelt að sjá hana fyrir sér, með hönd á fagurlaga mjöðm og vanþóknunarsvip á andlitinu spyrja salinn:

„If you can’t frack yourself, how in the hell you gonna frack somebody else?"

Amen.

 

 

Tengdar fréttir

Tónlist

Semur tónlist í nýjum þáttum með frægum dragdrottningum

Sjónvarp

Við fæðumst öll nakin og restin er drag

Umhverfismál

Bretar banna háþrýstiborun

Umhverfismál

Ástralskur þingmaður kveikir í á - myndskeið