Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Björgunarsveitir leita skipverjans í Vopnafirði í dag

24.05.2020 - 11:00
Mynd með færslu
 Mynd: Jón Helgason - RÚV
Leit í Vopnafirði að skipverjanum sem saknað er hófst um klukkan hálf tíu í morgun. Leitarsvæðið nær frá Selnibbu norðanmegin í Vopnafirði, inn fjörðinn, um sandfjörur og út að Búri sunnan megin í firðinum.

 

90 björgunarsveitamenn taka þátt í leitinni í dag og koma þeir frá björgunarsveitum allt frá Djúpavogi til Akureyrar, að því er segir í tilkynningu Lögreglunnar á Austurlandi. Leitað verður bæði á sjó og á landi og verður flugdróni notaður við leitina og fjörur verða gengnar. 

Samkvæmt veðurspá er spáð vaxandi suðvestanátt þegar líður á daginn og er því búist við að leitarskilyrði versni gangi spáin eftir. Leitað verður í dag á meðan hægt er og leitin skipulögð út frá aðstæðum á hverjum tíma.