Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Beittu táragasi og vatnsþrýstibyssum gegn mótmælendum

24.05.2020 - 12:18
Mynd: EPA-EFE / EPA
Lögreglan í Hong Kong beitti táragasi og vatnsþrýstibyssum gegn mótmælendum í Hong Kong í morgun. Þúsundir komu saman miðborginni til þess að mótmæla nýjum lögum sem kínverska þingið kynnti fyrir helgi.

Hong Kong búar hafa mótmælt nánast hverja helgi frá því í apríl í fyrra. En mótmælin í dag eru fyrstu fjöldamótmælin frá því kórónuveirufaraldurinn braust út. Kveikjan að þeim eru ný lög sem kínverska þingið kynnti og samþykkti drög að á föstudag. Lýðræðissinnar segja að þau marki endalok Hong Kong í núverandi mynd. „Við þurfum halda baráttunni áfram þannig að Peking viti að við gefumst aldrei upp,“ sagði Joshua Wong, 23 ára námsmaður frá Hong Kong sem hefur verið eitt af andlitum mótmælanna út á við. Lögreglan í Hong Kong var með mikinn viðbúnað í dag. Hún beitti táragasi og stórum vantsþrýsti byssum og yfir 100 voru handtekin úr röðum mótmælenda.

Stendur þétt að baki stjórnvöldum í Kína

Nýju lögin er sögðu snúa að öryggismálum í Hong Kong. Samkvæmt þeim er andóf og niðurrifsstarfsemi í garð kínverskra stjórnvalda bönnuð. Þau hafa mætt mikilli andstöðu víðs vegar að, um 200 hátt settir embættismenn frá rúmlega 20 löndum sendu frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem þau eru sögð yfirgripsmikil aðför að réttindum og frelsi. Þessu er Carrie Lam leiðtogi Hong Kong ekki sammála. Hún stendur þétt að baki stjórnvöldum í Kína og segir lögin ekki breyta neinu fyrir frelsi íbúa. 

epa08437526 Hong Kong Chief Executive Carrie Lam (C) speaks during a press conference at the Central Government Offices in Hong Kong, China, 22 May 2020. China announced that it will introduce a new national security law in Hong Kong banning sedition, secession and subversion of the central government in Beijing through a method that could bypass Hong Kong's legislature.  EPA-EFE/JEROME FAVRE
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Carrie Lam styðu kínversku stjórnvöld í þessu máli.

Hong Kong er sjálfstjórnarhérað í alþýðulýðveldinu Kína og nýtur ákveðins sjálfstæðis. Samband Hong Kong og Kína byggist á því sem kallað er eitt ríki - tvö kerfi. Í því felst að íbúar Hong Kong njóta áfram ýmissa réttinda sem þeir höfðu undir stjórn Breta. Til dæmis málfrelsi og frelsi til að mótmæla. Mótmælendur og aðrir andstæðingar öryggislaganna svokölluðu segja þau ganga gegn þessu kerfi sem hefur verið við lýði í rúm tuttugu ár.

olofr's picture
Ólöf Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV