Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Bandaríkjaher hleypir af geislavopni

24.05.2020 - 05:20
epa04998019 A handout picture released by the US Navy dated 12 March 2015 of the guided-missile destroyer USS Lassen (R) in formation with the South Korean patrol craft Sokcho during the Foal Eagle 2015 exercise in waters to the east of the Korean
Bandaríski tundurspillirinn USS Lassen sigldi inn í lögsögu smáeyjar í Spratly-eyjaklasanum í maí síðastliðnum. Spratly- og Paracels-eyjaklasarnir hafa verið bitbein Kínverja, nágrannaríkja þeirra og Bandaríkjanna um árabil.  Mynd: EPA
Tilraun bandaríska sjóhersins með nýtt og orkumikið geislavopn heppnaðist vel að sögn flotans. Æfingin var gerð á Kyrrahafi þar sem herskipið USS Portland skaut niður dróna. Yfirlýsing þessa efnis var birt á föstudag, og greint frá því að æfingin hafi verið haldin 16. þessa mánaðar.

Ekki var greint frá því hvar á Kyrrahafinu æfingin var haldin. Sjóherinn birti myndband af æfingunni á Youtube. Þar sést skipið varpa frá sér geislanum, og svo sést dróninn brenna.

 CNN hefur eftir Karrey Sanders, skipstjóra USS Portland, að æfingin veiti mikilvægar upplýsingar um hvers geislavopnið er megnugt gegn mögulegri ógn. Hann segir vopnið endurskilgreina sjóorrustur.

Ekki er vitað hversu öflugt geislavopnið er. Samkvæmt skýrslu rannsóknarstofnunar hernaðarmála frá árinu 2018 var búist við því að hann yrði um 150 kílóvött. Árið 2017 greinir CNN frá því að fréttamenn stöðvarinnar hafi orðið vitni að skotum úr 30 kílóvatta geislavopni um borð í herskipinu USS Ponce á Persaflóa.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV