Axel og Ólafía sigruðu eftir mikla dramatík

Mynd með færslu
 Mynd: Golfsamband Íslands - Twitter

Axel og Ólafía sigruðu eftir mikla dramatík

24.05.2020 - 21:15
Mikil spenna var á lokahring fyrsta stigamóts Golfsambands Íslans sem fór fram á Garðavelli á Akranesi. Úrslitin í báðum flokkum réðust á lokaholunni.

 

Axel Bóasson úr Keili sigraði í karlaflokki en hann lék samtals 6 höggum undir pari samtals. Haraldur Franklín Magnús úr GR varð annar á -5. Haraldur fékk skolla á lokaholunni en með pari hefði hann og Axel farið í bráðabana. Hlynur Bergsson, GKG; Guðmundur Rúnar Hallgrímsson, GS, og Hákon Örn Magnússon, GR, deildu þriðja sætinu á -4 samtals.

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, GR, sigraði í kvennaflokki. Miklar sviptingar voru á lokahringnum í kvennaflokki þar sem að Valdís Þóra var með fimm högga forskot á Ólafíu fyrir lokahringinn. Ólafía lék lokahringinn á einu höggi yfir pari eða 73 höggum en Valdís Þóra lék á 79 höggum eða +7. Úrslitin réðust á lokaholunni þar sem Ólafía Þórunn fékk par en Valdís Þóra fékk skolla.