Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Adam Schlesinger – minning um séní

Mynd: EPA / EPA

Adam Schlesinger – minning um séní

24.05.2020 - 15:50

Höfundar

„Svo vertu sæll, ókunnugi maður, og megir þú hvíla í friði. Þú gafst mér innblástur, fegurð og meira að segja von með því sem þú bjóst til,“ segir Halldór Armand í líkræðu sinni fyrir lagahöfundinn Adam Schlesinger sem lést fyrir stuttu úr COVID-19, aðeins 53 ára gamall.

Halldór Armand Ásgeirsson skrifar:

Árið 1996 kom úr bíómynd sem heitir That Thing You Do! og fjallar um uppskáldaða one hit wonder-hljómsveit á sjöunda áratugnum. Á Wikipedia sé ég að myndin var frumraun Tom Hanks sem leikstjóra, en hann leikur einmitt umboðsmann hljómsveitarinnar, The Wonders. Titill myndarinnar er líka titillinn á laginu sem skýtur The Wonders upp á stjörnuhimininn, That Thing You Do! Myndin fjallar svo um – nema hvað – hvernig hljómsveitarmeðlimirnir glíma við upphefðina og frægðina sem vitaskuld leggur að lokum The Wonders í rúst. 

Ég man eftir því þegar þessi mynd kom út. Ég var bara krakki og ekki alveg búinn að ná þeim aldri að þetta væri beinlínis eitthvað sem mig langaði að sjá í bíó. En þetta heillaði mig og ég hef alltaf munað eftir veggspjaldinu fyrir myndina. Annað sem eflaust hafði líka áhrif var að fyrsta platan sem ég keypti mér sjálfur var safngeisladiskur með Bítlunum. Ég keypti hana í Danmörku, í fyrsta skipti sem ég fór til útlanda, sama ár og myndin kom út. Afi minn hafði gefið mér danskar krónur í umslagi fyrir ferðina og líklega var það í fyrsta skipti á ævinni sem ég eignaðist peninga. Þeir fóru í þessa Bítlaplötu. Hvaða máli skiptir það fyrir That Thing You Do!? Jú, The Wonders eru Bítlarnir. Þannig séð. Þeir eru auðvitað bara one hit wonder-hljómsveit, en þeir eru með svipaðan stíl og Bítlarnir, gera eins tónlist og verða frægir á sama hátt og Bítlarnir. Og lagið That Thing You Do! gæti verið eftir Bítlana.

Það er í stuttu máli fáránlega gott lag, í rauninni hið fullkomna popplag, handverkið óaðfinnanlegt, laglínurnar eru ómótstæðilegar, hljómagangarnir lýtalausir, textinn beint í mark og svo framvegis. Ég fékk þetta lag algjörlega á heilann þegar ég heyrði það fyrst. Ég sá samt ekki myndina fyrr en nokkrum árum síðar. En það sem mér fannst algjörlega lygilegt, eiginlega ótrúlegt – þar sem ég sat inni hjá mér, hlustaði á Bítlana og spilaði Sonic á Sega-tölvunni minni, var að einhver skyldi geta samið svona lag eftir beiðni fyrir bíómynd. Þetta var bíómynd um one hit wonder hljómsveit, sem þýddi að hljómsveitin varð að spila lag í myndinni sem var sannfærandi alheimssmellur. Myndin stóð að vissu leyti og féll með því að titillagið í henni væri svo vel samið og grípandi að áhorfendur í bíósal væru jafnsannfærðir og áhorfendur á tónleikum The Wonders í myndinni að lagið væri alheimssmellur. 

Mamma hans Stacy

Hver í ósköpunum gat samið svona lag eftir beiðni bara? Var þetta ekki það sem alla lagahöfunda dreymdi um að geta? Semja lag sem öll heimsbyggðin fékk á heilann? Var þetta ekki hinn heilagi gralur popptónlistarmannsins? Já, hver í ósköpunum hafði getað hrist svona lag fram úr erminni eins og ekkert væri, bara vegna þess að Tom Hanks vantaði lag í bíómyndina sína?

Það vill svo til að maður heyrir í höfundinum í laginu sjálfu. Hann er háa bakröddin. Hann heitir Adam Schlesinger var algjörlega óþekktur maður um þrítugt þegar myndin kom út. Einhvern veginn komst ég á snoðir um að þetta væri höfundur lagsins. Seinna komst ég að því að hann var bassaleikarinn í hljómsveit sem hét Fountains of Wayne. Það var svona virt en ekkert sérstaklega fræg rokkhljómsveit. Árið 2003 átti hún smellinn Stacy’s Mom, hálfgert grínlag um ungling sem girnist móður vinkonu sinnar. Ég var unglingur þegar þetta lag lagði undir sig öldur ljósvakans. Og aftur fékk ég þessa tilfinningu; allt í lagi, þetta var grínlag og allt það … en þvílíkt lag engu að síður, maður, þvílík smíði. Þetta var algjörlega lýtalaus snilld, enda er Stacy’s Mom með 192 milljónir spilana á Spotify. Næstmest spilaða lag Fountains of Wayne er með 12 milljónir spilana. Hvernig gat brandari verið um leið svona … gjörsamlega brilljant. Hlustaðu á textann og viðlagið og þú heyrir sniðugt og grípandi grínlag. Hlustaðu á hljómagangana, uppbygginguna og pródúseringuna og þá heyrirðu verk einhvers konar snillings. Adam Schlesinger aftur.

Skyggðar rúður

Nokkrum árum síðar fékk ég barnastjörnurnar í hljómsveitinni Hanson á heilann, strákana frá Tulsa, Oklahoma sem barnungir sömdu lagið Mmmbop snemma á tíunda áratugnum og öðluðust heimsfrægð. Ég fékk þá á heilann vegna þess að þeir voru á mínum aldri og ég komst að því að þeir væru ennþá að gera plötur. Það var eitthvað við þessa bræður, þessa bandarísku fantasíu, þeir voru eitthvað svo fagrir, jákvæðir og yndislega kristnir. Nema hvað, fyrir nokkrum árum stofnaði einn af Hanson-bræðrum hljómsveit sem heitir Tinted Windows. Hafandi einhvern afbrigðilegan áhuga á manninum fór ég og hlustaði á plötuna, þetta var kraftmikið og seventíslegt popprokk, mjög grípandi og afskaplega vel samið, allt saman, óaðfinnanlegt handverk. Þá fór ég að lesa um hljómsveitina á netinu og sá þar að öll lögin voru samin af bassaleikaranum, Adam Schlesinger. Þarna var hann kominn einu sinni enn. Og aftur þessi tónn. Ómóstæðilega grípandi lög, en með þessum ótvíræða keimi af hryggð og sorg, sem gáfu þeim innri togstreitu og þar með dýpt.

Hvað var það eiginlega við þennan náunga? Ég vissi ekkert um hann og fylgdist ekki skipulega með því sem hann gerði. Þetta voru engan veginn uppáhaldshljómsveitirnar mínar. En samt var hann sífellt að gera eitthvað sem ég fékk áhuga á. Það var eins og það væri eitthvað í eðli sköpunarverka hans að sem olli því að þau komu alltaf fram á menningarratsjánni minni. Snillingurinn sem samdi alþjóðlegan poppsmell eftir pöntun, gaurinn í Fountains of Wayne, náunginn sem samdi öll lögin fyrir Tinted Windows. Einhver lagahöfundur í Bandaríkjunum sem enginn hefur heyrt um, og svo ég, bara einhver náungi á Íslandi, sem einhvern veginn fékk óhjákvæmilega áhuga á öllu sem hann kom nálægt, án þess að vita fyrirfram að hann væri að verki. 

Af hverju er ég að tala svona lengi um Adam Schlesinger, mann sem yfirgnæfandi meirihluti hlustenda hefur aldrei heyrt um? Vegna þess að hann dó úr Covid-vírusnum, 53 ára gamall, og það fyllti mig sorg að heyra það. Ég var ekki með plaggat af þessum manni uppi á vegg þegar ég var unglingur og og ég sóttist aldrei eftir því að fara á tónleika með hljómsveitunum hans og ég las mér aldrei neitt sérstaklega til um hann. En hann var eins og korktappi sem skaust sífellt á nýjan leik upp á yfirborðið fyrir mér. Þetta var maður í bakgrunni, þetta var bakröddin, sem fór ekki mikið fyrir, var ekki í sviðsljósinu, en var samt að því virðist alltaf heilinn á bakvið það sem skapað var. Og hann var að öllum líkindum séní. 

Ímyndun í aðdáun

Það fékk á mig að heyra að hann hefði fallið frá. Eins og ég segi, ég vissi ekkert um hann, en samt olli áralöng aðdáun mín á því sem hann bjó til, og sú mikla virðing sem ég bar fyrir hæfileikum hans, sálfræðilegum geislabaugsáhrifum. Ég sá fyrir mér að ég og Adam Schlesinger hefðum getað verið vinir. Ég ímyndaði mér að hann hefði verið með góðan, svartan húmor, hlédrægur og klár, og alveg örugglega mjög nettur, maður með góðan smekk og öflugan þvæluskynjara, algjör fagmaður, kurteis en með mjög sterkar skoðanir og sannfæringu. Ég ímyndaði mér að hann hefði glímt við ýmsa djöfla á sinni ævi og að hans stóri sigur í lífinu, jafnvel sigur sem vannst þvert á allar spár og líkur, hafi verið það þrekvirki hans að ná að rækta hæfileika sína og ástríðu, og að lokum blómstra, þrátt fyrir allan sjálfsefann og depurðina sem ávallt sveif eins og svört pláneta yfir höfði hans. 

Þetta er ekki byggt á neinu, það stendur ekki steinn yfir steini hérna, þessar setningar leysast upp í ryk og hverfa um leið og þær hafa verið sagðar. Þetta er bara sú ímyndun sem aðdáun mín á honum framkallaði.

Ég heyrði af dauða Adams á jafn handahófskenndan hátt og ég heyrði lögin hans. Ég var að hlusta á bandarískan rithöfund tala í hlaðvarpi. Skyndilega fór hann að tala um Adam Schlesinger og sagði í uppnámi að hann væri dáinn. Það kom á daginn að hann hafði lengi fylgst með og dáðst að Adam úr fjarlægð eins og ég, af sömu ástæðu, og ég fann fyrir sérkennilegri aðdáunartengingu milli okkar. Við áttum þetta sameiginlegt að hafa dáðst að manni, sem var ekki frægur, og hafði ekki ruðst inn í líf okkar á sama óviðráðanlega háttinn og stjörnur gera, en hafði skapað list sem snerti við okkur þannig að okkur var ekki sama um hann. Mann sem var nú dáinn úr plágunni sem olli því að við vorum báðir núna lokaðir inni hjá okkur, hvor í sinni heimsálfunni, báðir að hlusta á hið angurværa All Kinds of Time með Fountains of Wayne.

Svo vertu sæll, ókunnugi maður, og megir þú hvíla í friði. Þú gafst mér innblástur, fegurð og meira að segja von með því sem þú bjóst til, með tónlistinni sem ómaði í höfði þínu einhvers staðar úti í buskanum og rataði síðan alla leið í barns- og unglingseyra mitt gegnum útvarpstæki lengst uppi í Atlantshafi. Ég mun, að öllum líkindum, aldrei gleyma því, og ég þakka þér fyrir þitt framlag.

Tengdar fréttir

Pistlar

Réttur minn til að láta ljúga að mér

Pistlar

Dauði háskans á netinu

Pistlar

Við þolum ekki skattana sem við viljum borga

Pistlar

Sísýfos sefur undir stúkunni á Laugardalsvelli