Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Þúsund Pólverjar yfirgefa Ísland

23.05.2020 - 19:23
Mynd: Grímur Jón Sigurðsson / RÚV
Um þúsund Pólverjar hafa farið eða eru á leið úr landi vegna kórónuveirufaldursins og afleiðinga hans. Hins vegar eru um hundrað Pólverjar á leið til landsins, margir til að vinna í byggingariðnaði. Helmingurinn af þeim fjögur þúsund manns sem unnu á Keflavíkurflugvelli er pólskir að uppruna.

Fólk af pólskum uppruna er um tuttugu þúsund talsins hér á landi, samkvæmt opinberum tölum. En líklega enn fleiri í reynd.

„Við teljum að talan sé nær 25 þúsundum af því að opinberar tölur frá stjórnvöldum innihalda ekki þá sem eru hér með tímabundin atvinnuleyfi og ekki þá sem eru með íslenskan ríkisborgararétt,“ segir Maria Krasnodębska, sem er yfir efnahagssviði Pólska sendiráðsins. 

Eftir að landamærum Póllands var lokað um miðjan mars var boðið upp á fjórar flugferðir frá Íslandi beint til Póllands. Sú síðasta var fyrir um sjö vikum. Núna stendur til að bjóða upp á eina ferð til viðbótar. 

„Um 250 hafa sýnt þessu áhuga en einhverjir þeirra hafa dottið út af ýmsum ástæðum. Þetta verða um 200 manns sem geta farið. Það mega líka ekki fleiri
vera um borð,“ segir María. 

Með þessu sé eftirspurn nokkurn veginn annað. María bendir á að í bankahruninu hafi helmingur Pólverja hér snúið aftur til Póllands. Það sé ekki raunin nú. Í byrjun faraldursins hafi það einkum verið pólskir ferðamenn sem vildu fara úr landi.

„Nú er þetta mestmegnis fólk sem hefur misst vinnuna og vill fara aftur út Póllands. Sumir vilja bara fara heim af fjölskylduástæðum,“ segir María.

Þeir sem hafi búið hér stutt og hafi takmörkuð réttindi í atvinnuleysi séu líklegri til að fara. Aðrir vilji vera hér áfram og vonist til að fá starfið sitt á ný þegar atvinnulífið tekur við sér.

„Margir Pólverjar hafa misst vinnuna vegna þess að stór hluti þeirra hefur starfað við ferðaþjónustu,“ segir María.

Margir hafi unnið á Keflavíkurflugvelli.

„Af fjögur þúsund starfsmönnum á Keflavíkurflugvelli held ég að um tvö þúsund hafi verið pólsk, eða helmingurinn,“ segir María.

Með flugferðinni á þriðjudag hafa þúsund Pólverjar farið frá Íslandi með þessu beina flugi á COVID-tímum. 

„Það eru líka margir enn á leiðinni til Íslands. Þegar hafa um hundrað skráð sig
í flugið til Íslands,“ segir María.

Margir þeirra hafi fengið vinnu í byggingariðnaði. María segir að Pólverjar hér hafi aðstoða hver annan í faraldrinum. Til að mynda með því að kaupa í matinn fyrir þá sem voru í sóttkví. Heilbrigðismenntaðir Pólverjar hafi líka svarað kallinu þegar auglýst var eftir heilbrigðisfólki í bakvarðasveit.