„...og æ lukku mæta“

Mynd: Hinn íslenzki þursaflokkur / Hinn íslenzki þursaflokkur

„...og æ lukku mæta“

23.05.2020 - 14:18

Höfundar

Hermann Stefánsson rithöfundur fjallar um ritið Tónlist liðinna alda eftir Árna Heimi Ingólfsson og finnur frekari upplýsingar um þjóðlagið Vera mátt góður sem Egill Ólafsson og Sólrún Edda Benedikz Hermannsdóttir flytja tveggja radda útgáfu lagsins í nýrri upptöku.

Hermann Stefánsson skrifar:

Það jafnast fátt á við að handleika gömul handrit. Kannski hljómar það eins og blæti — og jafnvel óviðeigandi á snertibannstímum — en í raun fylgir því einstök tenging við söguna, miklu öflugri og sterkari reynsla en að lesa nýjar útgáfur af gömlum bókum eða fræðast um eitthvað gamalt á netinu, einfaldlega vegna þess að snertiskynið er öðruvísi en hin skilningarvitin og þefskynið gefur því lítið eftir. Maður finnur lykt af tíma. Snertiskynið er næmast af öllu. Maður snertir eitthvað sem einhver annar hefur snert og skrifað á fyrir áratugum eða öldum, finnur lykt af tíma, kemst í áþreifanlegt samband við aðra manneskju sem var til í raun og veru og skrifaði handritið — og í beina snertingu við söguna. Maður þarf ekki að hafa hvíta hanska og skilur bókstaflega eftir fingrafar sitt á sögulegu dokúmenti, eins og höfundur nýrrar bókar orðar það í eftirmála.

Auðvitað snertir maður aldrei nema svo og svo mörg handrit. Það eru til aðferðir til að líkja eftir þessari reynslu: Sem unglingur gerði ég tilraun til að þræla mér í gegnum ljósprentaða hátíðarútgáfu af Flateyjarbók, gamalli gjöf til þingmanna sem einn þeirra gleymdi í leiguherbergi hjá ömmu minni. Ég man ekki betur en að það hafi dregið talsvert nær en að líta á Flateyjarbók á netinu í dag: Maður fékk annars konar tilfinningu fyrir sögunni. Nýjasta tilraunin í þessa veru er útgáfa Crymogaeu á Tónlist liðinna alda eftir Árna Heimi Ingólfsson sem út kom fyrir jólin. Raunar er bókin miklu meira en tilraun til að ná fram tilfinningu fyrir því að handfjatla handrit því á öndverðri síðu við hverja litprentaða mynd úr íslenskri tónlistarhandritasögu er rækileg úttekt Árna Heimis á sama handriti. Þetta eru frumrannsóknir og ekki ofmælt að kenna bókina við tímamót.

Lestrarleiðbeiningar

Árni Heimir er nákvæmur fræðimaður og skemmtilegur. Ástríðan fyrir viðfangsefninu skín í gegn. Að baki er mikil vinna og mikil fyrirhöfn og mörg fingraför á mörgum handritum. Og svo fylgir kaupbætir: Leiðbeiningar við lestur þessarar bókar myndu hljóma á þá leið að best sé að liggja með svo stóra bók í rúminu og gera leit á Spotify að „Tónlist liðinna alda“ og hlusta á sama tíma því þar má einmitt finna tónlistina í bókinni í flutningi Kammerkórsins Carminu undir stórn Árna Heimis, stundum fleiri söngvarar og stundum færri, stundum einsöngur og stundum kór, og stundum með hljóðfæraundirleik þar sem leitast er við að komast sem næst upprunalegum útgáfum. Með þessari lestraraðferð getur maður fylgt nótunum í handritunum og það jafnvel þótt maður sé torlæs á nótur, ekki síst nótur frá liðnum öldum sem koma leikmanni æði torkennilega fyrir sjónir. Sömuleiðis má finna hvar í handritunum eru villur sem höfundurinn bendir hæversklega á. Hverju handriti fylgir merkileg saga og bókin er kaflaskipt eftir því úr hvaða safni nóturnar koma. Megnið af tónlistinni er trúarlegt og sáralítið veraldlegt; það er athyglisvert hversu mikil hnignun verður á 18. öld í tónlistarflutningi. Maður fær tilfinningu fyrir því hvernig gjörvöll tónlistarsaga Íslands líti út — og það er spilað á öll skilvitin, snertiþrána með fádæma góðu prentverki og líka heyrnina með fylgitónlistinni. Það er líka skemmtilegt þegar nótur vantar í handrit, eins og Árni Heimir tekur eitt dæmi um. Af hverju vantar þær? Var hörgull á aðgengi að tónlistinni eða ætlaði skrifarinn að klára verkið síðar? Árni Heimir gætir þess að skilja hlutina eftir nægilega opna, því þetta er opnandi bók en ekki lokandi.

Hver mun spyrja

Ástæðan fyrir því að ég varð mér úti um þessa bók er skilningsþorsti um íslenska þjóðlagið „Vera mátt góður“ sem ég þekki best í flutningi Þursaflokksins. Um það flutti ég pistil fyrir skemmstu. Ég vitnaði þá í grein eftir Árna Heimi í tímaritinu Griplu. Þar er sagt frá ítölskum texta við lagið og uppruni þess rakinn til svokallaðra Napólísöngva. Ítalski textinn er gerólíkur þeim íslenska, kæruleysislegur ástaróður. Hins vegar hefur Árni Heimir bætt um betur í nýju bókinni sinni og fundið textann sem íslenski textinn er þýðing á. Textinn er á latínu og kom út í þýsku nótnaprenti. Þar eru líkindin við íslenska textann meira en augljós, enda þótt ansi knár þýðandi hafi komið textanum undir stuðla og höfuðstafi, auk ríms. Ég þóttist hafa greint íslenska textann nokkuð sannfærandi í pistlinum sem þessi pistill er framhald af. Skemmst er frá því að segja að þegar latneski frumtextinn er hafður til hliðsjónar reynast flestar mínar hugmyndir dálítið hæpnar, ef ekki beinlínis rangar. Ég ætla ekki að bera neitt fram úr hófi í bætifláka fyrir þetta en rétt skal vera rétt (það vill bara svo til að íslenski textinn er nógu haganlega smíðaður til að geta leitt mann á frjóar villigötur).

Það er reyndar skemmtileg tilhugsun ef hægt væri að verja pistla, nú, eða skáldsögur, á sama hátt að fólk ver doktorsritgerðir. En staðreyndin er sú að hvort tveggja er iðulega óverjandi. Sem er sennilega eins gott þegar kemur að skáldsögum.

Þeim sem vilja fræðast meira um textann skal bent á bók Árna Heimis. Skiptingar á milli ávarps og fyrstu persónu frásagnar reynast öðruvísi en ætla má, kristilegi boðskapurinn er skýrari og íslenski hryssingurinn á sér rætur í frumtexta á latínu. Það verður næsta ljóst að íslenska línan „Líf þitt stutt og ljót afdrif hver mun spyrja“ merkir: Hegðirðu lífi þínu ekki kristilega munu allir fregna þín ljótu afdrif (eða ömurlega dauðdaga) — ekkert spurningarmerki er í fullyrðingunni fólgið. Ég veit ekki hvort er verra, að allir fregni manns ljótu afdrif eða enginn. En að þessu komst ég með því að setja eldri syni mínum fyrir svolítið latínuverkefni, hann hrakti túlkun mína nokkuð örugglega.

Og tónlistarlega er Árni Heimir búinn að ráða gátuna sem ég lagði upp með að svara og birta í aldeilis stórgóða bók sem ég ekki þekkti. Upprunaleg útsetning á „Vera mátt góður“ hljóðar svo.

Týndi hlekkurinn?

Menntun er ekki ferli sem lýkur með brautskráningu heldur ævistarf. Maður er aldrei fullmenntaður. Ég held að hver sem er mennti sig meira en lítið í íslenskri tónlistarsögu með því að sitja með bók Árna Heimis Ingólfssonar, Tónlist liðinna alda, handfjatla hana og lesa hana og hlusta á tónlistina á Spotify. Það þarf ekki að fráfælast klassíska heiðríkjuna í hugsun og yfirbragði þessarar bókar, hvergi stendur skrifað að hún sé sérstaklega ætluð þeim sem voru svo gæfusamir að fara í tónlistarnám sem börn fremur en fólki eins og mér, sem fékk sem barn að heyra að ég væri „músikfalskur“, að því er mér heyrðist, og neitaði staðfastlega nokkru tónlistarnámi.

Þegar ég hafði loksins fengið gátuna um „Vera mátt góður“ leysta og heyrt upprunalegu útsetninguna langaði mig til að heyra týnda hlekkinn í þessari sögu, hvernig lagið hefði hljómað ef efsta línan hefði borist til landsins með bassalínunni en samt orðið á því þær breytingar sem íslensk þjóðlagahefð gerði. Höfundur bókarinnar var svo almennilegur að lána mér nótur. Þessi þorsti slokknaði ekki og því var ekkert að gera annað en að breyta um takttegund, biðja Egil Ólafsson um að syngja bassann aftur og biðja dóttur mína, óperusöngkonuna, Sólrúnu Heddu Benedikz Hermannsdóttur, að syngja efri línuna og útsetja. Svona hefði þetta getað verið. Eða kannski hefði það aldrei getað verið svona en hefði bara átt að vera það.

Mynd: Hinn íslenzki þursaflokkur / Hinn íslenzki þursaflokkur
Flutningur Egils og Sólrúnar Heddu

Tengdar fréttir

Tónlist

„En ef þú þann veg þenkir ...“