Hertz óskar eftir greiðslustöðvun í Norður-Ameríku

23.05.2020 - 04:52
epa08438549 Eental cars sit in a parking lot of the Dogers Stadium amid the coronavirus pandemic in Los Angeles, California, USA, 22 May 2020. According to media reports on 22 May, car rental company Hertz Global Holding Inc. has filed for bankruptcy after the coronavirus virus outbreak saw a subsequent down turn in people travelling.  EPA-EFE/ETIENNE LAURENT
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Bílaleigan Hertz sótti um greiðslustöðvun í Bandaríkjunum og Kanada í gær. Áhrif COVID-19 ollu mikilli lækkun á tekjum félagsins og fækkun á bókunum, segir í fréttatilkynningu fyrirtækisins.

Ekki er krafist greiðslustöðvunar á öðrum stærstu svæðum fyrirtækisins, á borð við Evrópu, Ástralíu og Nýja Sjáland. Þá er heldur ekki óskað eftir greiðslustöðvun fyrirtækja sem eru með umboð frá Hertz.

Óvissuástand stýrir ákvörðuninni

Í tilkynningunni segir að stjórnendur hafi sett heilsu og öryggi starfsmanna og viðskiptavina í forgang. Eins hafi verið dregið úr öllum kostnaði sem ekki þótti nauðsynlegur. Mikil óvissa sé hins vegar um hvenær fyrirtækið geti aftur átt von á tekjum, og hvenær sala hefst aftur á notuðum bílum. Því hafi fyrirtækið þurft að óska eftir greiðslustöðvun.

Hertz hafði þegar sagt upp tíu þúsund starfsmönnum í Norður-Ameríku 21. apríl. Það er ríflega fjórðungur starfsmanna fyrirtækisins á heimsvísu. 
Í tilkynningu fyrirtækisins segir að með greiðslustöðvuninni gefist tími til endurskipulagningar. Það geti svo orðið vísir að betra fjárhagsskipulagi sem komi fyrirtækinu í sem besta stöðu til framtíðar. Starfsemi fyrirtækisins heldur áfram, og eiga viðskiptavinir ekki að finna fyrir endurskipulagningunni. Fyrirtækið hefur yfir milljarð bandaríkjadala til þess að styðja núverandi rekstur þess. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi