Blasir feigð við Renault?

23.05.2020 - 05:24
Erlent · Bílar · COVID-19 · Frakkland · Rafbílar · viðskipti
epa07602871 (FILE) - An image of Renault logo at a dealership in Birmingham city centre, United Kingdom, 16 May 2009 (reissued 26 May 2019). Media reports on 26 May 2019 state Fiat Chrysler could on 27 May 2019 make public information regarding a possible merger with Renault. Reports further state Renault board will meet on 27 May to discuss the topic.  EPA-EFE/LAWRENCE LOOI UK & IRELAND OUT
 Mynd: EPA-EFE - NTI
Hugsanlegt er að franski bílaframleiðandinn Renault lifi ekki af samdráttinn sem fylgir kórónuveirufaraldrinum án aukins stuðnings franska ríkisins. CNN greinir frá þessu.

Bruno Le Maire viðskiptaráðherra Frakklands sagði í útvarpsviðtali í gær að Renault ætti í alvarlegum fjárhagsvanda og gæti því liðið undir lok.  

Árið 2019 var það erfiðasta fyrir bílaframleiðandann í heilan áratug og nú hefur heimsfaraldurinn bætt gráu ofan á svart.

Minni eftirspurn eftir farartækjum 

Farartækjaframleiðendur um allan heim standa frammi fyrir minnkaðri eftirspurn eftir framleiðsluvöru sinni og gríðarmikilli röskun á starfsemi. Því valda aðgerðir sem miðað hafa að því að hægja á útbreiðslu kórónuveirufaraldursins með því að hvetja starfsfólk til að halda sig heima og loka verksmiðjum.  

Renault sem stofnað var árið 1899 hætti allri framleiðslu um miðjan mars í tólf verksmiðjum sínum í Frakklandi. Flestar þeirra hófu starfsemi aftur fyrr í þessum mánuði.  

Orð viðskiptaráðherrans tengjast bollaleggingum franskra dagblaða um að stjórnendur fyrirtækisins séu að íhuga endanlega lokun nokkurra verksmiðja sinna í Frakklandi. Þar á meðal flaggskipinu sjálfu í borginni Flins norður af París. 

Viðskiptaráðherrann franski telur það útilokað en franska ríkið og japanski bílaframleiðandinn Nissan eru stærstu hluthafar í Renault bílaverksmiðjunum með 15% hlut hvort.  

Lán í bígerð

Ríkisstjórn Frakklands er nú að leggja drög að að fimm milljóna evra (780 milljóna króna) láni til bílaframleiðandans en ekki hefur enn verið lögð lokahönd á þau.  

„Við munum undirrita um leið og við vitum hvað Renault ætlast fyrir” segir Le Maire sem ætlast til að fyrirtækið horfi enn frekar í átt að framleiðslu umhverfisvænna farartækja. Hann kveður ríkisstjórnina vilja að fyrirtækið auki framleiðslu rafdrifinna farartækja í Frakklandi.  

Reiknað er með að Renault geri fyrirætlanir sínar um lækkun framleiðslukostnaðar heyrinkunnar 29. maí næstkomandi. 

Jafnframt er búist við að Nissan sem á í miklu samstarfi við Renault og japanska framleiðandann Mitsubishi opinberi ítarlega uppstokkun á rekstri sínum í næstu viku. Japanskir fjölmiðlar gert ráð fyrir að Nissan mun tilkynna uppsagnir um 20 þúsund starfsmanna. 

Langvinnur vandi

Ekki hefur verið ein báran stök í rekstri Renault og Nissan undanfarið því rykið hefur varla sest vegna hneykslismáls tengdu fyrrverandi stjórnarformanni fyrirtækjanna Carlos Ghosn. Hann flúði í skyndingu frá Japan í desember síðastliðnum en þar beið hann réttarhalda vegna fjármálamisferlis. Tveir menn sem aðstoðuðu hann við flóttann voru handteknir vestanhafs í vikunni.  

Auk þess sneri Fiat Chrysler samsteypan frá mögulegum samruna við Renault á síðasta ári vegna tómlætis frönsku ríkisstjórnarinnar. Við það hefði orðið til þriðji stærsti bílaframleiðandi heims á eftir Volkswagen og Toyota.  

Það hefði sömuleiðis fært Renault möguleika á að taka þátt í kapphlaupinu um framleiðslu rafmagnsbíla. Þess í stað samþykkti stjórn Fiat Chrysler samruna við PSA sem framleiðir Peugeot. 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi