Þrjú sveitarfélög og tvö byggðasamlög á listanum

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Minnst þrjú sveitarfélög og tvö byggðasamlög eru á lista Vinnumálastofnunar yfir þau fyrirtæki sem hafa nýtt sér hlutabótaleið yfirvalda. Listinn var birtur í kvöld. Sveitarfélögin eru Dalvíkurbyggð, Strandabyggð og Skútustaðahreppur en á listanum má einnig finna byggðasamlögin Sorpu og Strætó.

Listi Vinnumálastofnunar var birtur í kvöld.

Hans hefur verið beðið eftir að greint var frá því í fjölmiðlum að stöndug fyrirtæki eins og Hagar, Festi, Össur og Skeljungur hefðu nýtt sér hlutabótaleiðina. Fyrirtækin hafa öll endurgreitt aðstoðina.

Á lista Vinnumálastofnunar eru nokkur þekkt fyrirtæki, meðal annars ráðgjafafyrirtækin Efla og Verkís,  Lyf og heilsa, Samskip, Ölgerðin Egill Skallagrímsson og Pizza-Pizza, móðurfélag Domino's á Íslandi. Þarna er einnig 1912 ehf sem á heildsölurnar Nathan & Olsen og Ekruna og Emmessís.  Sömuleiðis alþjóðlegar fatakeðjur á borð við H&M og New Yorker og Miklatorg sem á og rekur IKEA. 

Að langmestu leyti eru þetta þó ýmis ferðaþjónustufyrirtæki, veitingastaðir og kaffihús og hótel. 

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, hefur sagt að úrræðið hafi verið sett saman á sínum tíma með hraði. Ætlunin hafi ekki verið sú að stöndug fyrirtæki væru að nýta sér þetta neyðarúrræði til að greiða niður laun sinna starfsmanna og því yrði lögunum breytt. 

Og nýtt frumvarp leit dagsins ljós um miðjan mánuðinn. Samkvæmt því mega mánaðarlaun stjórnenda fyrirtækja sem sækja um hlutabótaleiðina ekki vera hærri en þrjár milljónir og þau mega ekki greiða hluthöfum sínum arð til ársins 2023.  Hvergi er þó kveðið á um að sveitarfélög eða byggðasamlög megi ekki nýta þessa leið.

Í lögum um greiðslu vegna hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti nemur stuðningurinn að hámarki 633 þúsund krónum. Þar er tekið skýrt fram að frumvarpið nái ekki til stofnana, byggðasamlaga og fyrirtækja í eigu ríkis og sveitarfélaga.

Listann yfir þau fyrirtæki sem hafa nýtt sér hlutabótaleiðina má sjá hér. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi