Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Staðfestir að íslensk lög gildi um smálánafyrirtæki

22.05.2020 - 13:58
úr umfjöllun Kveiks um smálán
Úr umfjöllun Kveiks um smálán Mynd: DR
Áfrýjunarnefnd neytendamála hefur staðfesti ákvörðun Neytendastofu að íslensk lög gildi um smálaánafyrirtækið eCommerce. Þar með stendur sú ákvörðun Neytendastofu að smálánafyrirtækið hafi brotið lög um neytendalán.

Neytendastofa komst að þeirri niðurstöðu í ágúst síðastliðnum að eCommerce hefði brotið lög með því að leggja hærri vexti og kostnað á smálán en heimilt var. 

Kostnaður lánanna hafi verið á bilinu 3.444 prósent upp í 13.298 prósent. Það væri margfalt umfram lögbundið hámark sem er 50 prósent, auk stýrivaxta. Þá taldi Neytendastofa að upplýsingagjöf hefði verið ófullnægjandi, bæði í stöðluðu eyðublaði og lánssamningum. 

Forsvarsmenn eCommerce, sem hafa boðið upp á smálán í gegnum 1909, Smálán, Kredia og Múla, sendu í framhaldinu frá sér yfirlýsingu. Þar sögðu þeir að íslensk lög giltu ekki um félagið þar sem það hefði aðsetur í Danmörku.  Ákvörðun Neytendastofu var því áfrýjað til áfrýjunarnefndar um neytendamál.

Áfrýjunarnefndin segir í úrskurði sínum að það skipti máli að fyrirtækið hafi gengist við því að hafa sent tölvubréf og smáskilaboð í farsíma til viðskiptavina. Þá hafi fyrirtækið haldið úti heimasíðum undir nokkrum vörumerkjum, meðal annars kredia.dk, en þar hafi upplýsingar birst á íslensku eða ensku eftir því hvort íslenskur, danskur eða breskur fáni var valinn.

Nefndin tekur einnig fram að eCommerce hafi veitt lán í íslenskum krónum. Það sé gjaldmiðill sem nær eingöngu sé gjaldgengur á Íslandi. Þá þurfi viðskiptavinir að hafa íslenska kennitölu til að hafa eiga viðskipti við fyrirtækið. Markaðssetning hafi einnig farið fram á íslensku og því sé ljóst að starfsemi eCommerce miðist við að veita neytendum á Íslandi lán.

Þá bendir nefndin á að heimasíða fyrirtækisins sé sniðin að íslenskum neytendum umfram aðra.  Þetta megi jafna við að fyrirtækið hafi birt auglýsingu á Íslandi.  Var það því niðurstaða nefndarinnar að íslensk lög gildi um eCommerce og ákvörðun Neytendastofu staðfest.