Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Smituðum flóttamönnum vísað úr landi í Bandaríkjunum

22.05.2020 - 02:43
epa07105826 Honduran migrants try to cross the border between Guatemala and Mexico, in Tecun Uman, Guatemala, 19 October 2018. Thousands of migrants from Honduras pushed their way through the police cordon in Tecun Uman, a border point between Mexico and
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Alejandro Giammattei, forseti Gvatemala, er verulega ósáttur við þau vinnubrögð Bandaríkjanna að senda fólk úr landi sem er smitað af COVID-19, hvað þá til ríkis sem á í vandræðum með að takast á við faraldurinn. Hann segist ekki geta talið Bandaríkin til bandalagsþjóða Gvatemala þegar þau komi svona fram við ríkið.

Yfirvöld í Gvatemala hafa staðfest að yfir hundrað flóttamenn sem var vísað frá Bandaríkjunum hafi verið smitaðir af COVID-19.

Yfirvöld í Bandaríkjunum eru byrjuð að skima fyrir veirunni hjá flóttamönnum frá Gvatemala áður en þeir eru sendir á brott. Þrátt fyrir það hafa yfirvöld í Gvatemala tekið á móti smituðum einstaklingum. Hjá sumum hafði vika liðið frá því þeir höfðu fengið neikvæða niðurstöðu úr prófi þar til þeir voru sendir aftur til Gvatemala. Giammattei segir þá sem sendir eru smitaðir heim auka á vanda heilbrigðiskerfisins, sem þegar er orðið yfirfullt. Hann segir Bandaríkin hafa veitt öðrum ríkjum aðstoð, til að mynda fært þeim öndunarvélar. Gvatemala hafi hins vegar ekkert fengið, hefur Al Jazeera eftir honum. 

Giammattei segist hafa fullan skilning á því að Bandaríkin vilji vísa fólki frá landi. En hann skilji ekki hvers vegna þeir sendi flugvélar fullar af smituðum einstaklingum.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV