Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Skiluðu inn framboði til forseta

22.05.2020 - 16:19
Mynd: Samsett / Samsett
Guðni Th. Jóhannesson og Guðmundur Franklín Jónsson skiluðu í dag inn framboði til forseta. Framboðsfrestur rennur út á miðnætti.

Forsetakosningarnar fara fram laugardaginn 27. júní en kosning utan kjörfundar erlendis hefst mánudaginn 25. maí. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, mætti í dómsmálaráðuneytið klukkan hálf tvö í dag til þess að skila inn framboði sínu. Hann segir komandi kosningabaráttu leggjast vel í sig.

„Af minni hálfu verður hún hófstillt. Ég vænti þess að hún verði heiðarleg og ég vænti þess líka að Íslendingar nýti þennan rétt, að ganga til kosninga.“  

Guðmundur Franklín Jónsson skilaði inn sínu framboði á fjórða tímanum. Hann segir að kosningabarátta hans hefjist fyrir alvöru á morgun. 

„Henni verður háttað á þann hátt að í byrjun ætla ég að fara í kringum landið og heimsækja hvern einasta stað á landinu og tala við fólk, njóta veðursins og blíðunnar og fólksins. Og áttu von á góðum heimtum? Já, ég á alltaf von á góðum heimtum. En maður verður að hafa fyrir því, það er ekkert öðruvísi,“ segir Guðmundur.

Framboð til embættis forseta Íslands teljast ekki gild fyrr en frambjóðendur hafa skilað inn tilskildum fjölda meðmælenda, 1500 til 3000 á landsvísu, en ákveðið hlutfall undirskrifta þarf að berast úr hverjum landsfjórðungi.

Fimm höfðu lýst yfir áhuga á framboði, þeir Arngrímur Friðrik Pálmason, Axel Pétur Axelsson, Guðmundur Franklín Jónsson, Guðni Th. Jóhannesson, Kristján Örn Elíasson og Magnús Ingiberg Jónsson. Magnús dró framboð sitt til baka 16. maí og Kristján Örn 19 maí. Axel Pétur Axelsson hefur kært framkvæmd undirskriftarsöfnunarinnar til Hæstaréttar.