Segja að græðgi skýri sein viðbrögð í Ischgl

22.05.2020 - 10:14
Erlent · COVID-19 · Evrópa
Mynd: Jón Björgvinsson / RUV
Stjórnarandstæðingar í Tíról í Austurríki segja hagsmunatengsl skýra hversu seint var brugðist við viðvörunum Íslendinga um útbreitt kórónuveirusmit í skíðabænum Ischgl. Stjórnvöld sæta nú rannsókn þingskipaðar nefndar, hópmálsókn og ákæru ríkissksóknara Austurríkis. Jón Björgvinsson, fréttaritari RÚV, kynnti sér aðstæður í Ischgl á dögunum.

Landsþingið í Tírol situr þessa dagana í ráðstefnuhöllinni í Innsbruck. Bernhard Tilg heilbrigðisráðherra Tírol sætir nú harðri gagnrýni þar vegna meintra mistaka í meðferð Covid smitsins í skíðabænum Ischgl, sem Íslendingar voru fyrstir til að vekja athygli á. Georg Dornauer, leiðtogi sósíaldemókrata, var einn þeirra sem lögðu fram vantrauststillögu á ráðherrann í síðustu viku en hún var felld. „Núna er ljóst að alvarleg mistök voru gerð í neyðarviðbrögðum í Tíról, sem er mjög miður. Víðtækt smit ekki aðeins í Tíról og Austurríki heldur um alla Evrópu má rekja til Ischgl og okkur grunar að víðtæk hagsmunatengsl Þjóðarflokksins, Sebastian Kurz, kanslara og Günther Platter, landsstjóra í Tíról hafi valdið því að efnahagslegir hagsmunir hótel og skíðalyftueigenda voru teknir fram yfir hagsmuni íbúanna í Tíról, og bæði heilsu þeirra og heilsu gesta okkar,“ segir Dornauer. Í höfuðborginni Vín ber Sebastian Kurz kanslari þessar ásakanir af sér. „Ég tel sjálfsgagnrýni og að tekist sé á um hvað betur hefði mátt fara af hinu góða. En ég tel rangt að láta sem einn staður sé sekur um þennan heimsfaraldur.“

Allir starfsmenn veikir en flautubarinn enn opinn

Þótt snjórinn sé nú horfinn frá Ischgl á það sama ekki við um eftirmála Covid smitsins. Mannþröng á víðfrægum börum bæjarins er kennt um hversu smitið varö útbreitt. Til dæmis hér á Kitchlock barnum. Eftir að sóttvarnarteymi Landlæknis varaði Austurríkismenn við því að 14 Íslendingar, meira en helmingur þeirra sem þá voru greindir sýktir á Íslandi, hefðu tengsl við Ischgl, reyndust allir starfsmenn á þessum bar smitaðir en honum var þó ekki lokað fyrr en 2 dögum síðar og skíðasvæðinu öllu ekki fyrr en viku síðar. „Við treystum sérfræðingunum sem sögðu okkur að okkur væri óhætt að halda staðnum opnum ef við skiptum út starfsfólkinu og sótthreinsuðum staðinn hátt og lágt,“ segir Bernhard Zangerl, veitingamaður á Kitchloch. 

Treysta á austurríska réttarkerfið

Óháð rannsóknarnefnd er nú ekki aðeins að kanna hvers vegna viðbrögð í Ischgl létu á sér standa eftir að Íslendingar vöruðu yfirvöld hér við þessari gróðrastýju Covid smita. Því rannsókninni er ekki síður ætlað að athuga alvarlegri grun eða þann hvort tölvupósturinn frá Íslandi hafi óvænt leitt í ljós að því hafi vísvitandi verið leynt vegna mikilla hagsmuna að veiran hefði þá þegar verið búin að grassera hér í Ischgl í heilan mánuð. Spjótin beinast því nú úr öllum áttum að bæjaryrfirvöldum hér í Ischgl. „Við viljum sjálf að málið verði krufið til mergjar svo við gerum okkur grein fyrir hvort rétt hafi verið aö öllu staðið. Rannsókn þingnefndarinnar beinist einkum að landsstjórninni í Tíról og heilbrigðisyfirvöldum þar. Okkar aftur á móti bíður kæra hjá Ríkissaksóknara Aussturríkis. Við bíðum úrskurðar hans og veitum honum fulla samvinnu og ég treysti á austurríska réttarríkið,“ segir Werner Kurz, bæjarstjóri í Ischgl. Eftir ellefu þúsund smit víðsvegar um Evrópu og 25 dauðsföll sem rakin eru hingað eiga yfirvöld í Ischgl, sem nú er eins og draugabær, ærið verk fyrir höndum að rétta við orðstír sinn. 

 

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi