Reiðihvæs kattarins er rétta stemmingin fyrir sumarið

Mynd: Hörður Ásbjörnsson / Alda Music

Reiðihvæs kattarins er rétta stemmingin fyrir sumarið

22.05.2020 - 16:54

Höfundar

Í dag kom út lagið Kattarkvæði með tónlistarmanninum Ingva Rafni Björgvinssyni sem kallar sig dirb, en í því nýtur hann liðsinnis rapparans Kött Grá Pje.

Þetta er önnur smáskífa Ingva undir listamannsnafninu dirb en hann hefur verið virkur í reykvískri tónlistarsenu til fjölda ára og leikið á bassa með ýmsum sveitum, til að mynda skóglápssveitinni Oyama. „Ég færði mig í nýtt stúdíórými fyrir stuttu og er búinn að nýta það vel, það lofar góðu fyrir framhaldið,“ segir Ingvi en fyrsta breiðskífan hans kemur út 19. júní. „Ég var í skapandi sumarstarfi 2015 og þar fékk ég andrými til að þróa mína eigin tónlist, þar fæddist dirb.“

Kattarkvæði er meira en árs gamalt lag og strákarnir segja að samstarfið hafi gengið mjög vel fyrir sig. „Ég sendi Atla bara e-mail og hann kom í stúdíóið og þetta gekk mjög smurt.“ Ingvi vildi ekki fá hvern sem er til að rappa í laginu, heldur einhvern með mikinn karakter, þar sem takturinn er nokkuð óhefðbundinn. „Einhvern svona skrítinn gamlan fokker,“ segir Kött Grá Pé. Það var Eðvarð Egilsson sem áður var í Steed Lord sem tók upp sönginn og Ingvi kann honum mjög vel söguna. „Hann er algjör víbringsmeistari og bjó til æðislega stemmingu, rafmagnað session,“ segir Ingvi og kötturinn tekur undir það. „Ég endaði bara kjökrandi að reyna að syngja Nallann einhvers staðar í námunda við Hlemm.“ Þeir segja lagið ekki fjalla beinlínis um ketti. „Þetta er frekar eins og reiðihvæs kattar, sem er eini rétti sumarfílingurinn,“ segja þeir hlægjandi.

Tengdar fréttir

Tónlist

„Fast að því miðaldra og forpokaður eftir því“

Bókmenntir

„Ég verð að skrifa“